Grunnskólar

Almenn leiðsögn um grunnsýningu Þjóðminjasafnsins, Þjóð verður til

Almenn leiðsögn um grunnsýningu Þjóðminjasafnsins, Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár, er ávallt í boði fyrir alla aldurshópa. 

Almenn leiðsögn hentar einkum nemendum í unglingadeild sem hafa ekki heimsótt Þjóðminjasafnið áður í skipulagðri skólaheimsókn.

Markmið:

· Að nemendur upplifi Þjóðminjasafnið sem áhugaverðan stað til að heimsækja

· Að nemendur kynnist þeim þekkingarbrunni sem grunnsýning Þjóðminjasafnsins er

· Að efla samfélagsvitund nemendanna og ýta undir hæfni þeirra til að skilja veruleikann (umhverfið, samfélagið, söguna og menninguna).

Fyrirkomulag heimsóknar:

Tekið er á móti hópnum í anddyri safnsins. Nemendur hengja upp útifatnað í fatahengi í kjallara og setjast á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður þá velkomna, kynnir heimsóknina og fer yfir þær reglur sem gilda á safni. Safnkennari veitir almenna leiðsögn um helstu gripi og umfjöllunarefni á grunnsýningu safnsins. Kennari og nemendur geta haft áhrif á áherslur í leiðsögninni með spurningum eða beiðni um að ákveðið umfjöllunarefni sé haft að leiðarljósi.

Leiðsögnin tekur um klukkustund.

Bókun skólahópa í heimsókn í Þjóðminjasafnið á Suðurgötu fer fram í gegnum bókunarsíðu safnsins.