Grunnskólar

Allir aldurshópar: Almenn leiðsögn um grunnsýningu Þjóðminjasafnsins, Þjóð verður til

Almenn leiðsögn um grunnsýningu Þjóðminjasafnsins, Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár, er ávallt í boði fyrir alla aldurshópa. 

Smellið hér til að bóka heimsókn.

Í heimsókninni er lögð áhersla á að nemendur upplifi Þjóðminjasafnið sem áhugaverðan stað til að heimsækja, kynnist þeim þekkingarbrunni sem grunnsýning Þjóðminjasafnsins er og að efla samfélagsvitund nemendanna og ýta undir hæfni þeirra til að skilja veruleikann, umhverfið, samfélagið, söguna og menninguna.

Hæfniviðmið og menntagildi

Menntagildi samfélagsgreina eins og þau eru útskýrð í Aðalnámskrá grunnskóla eru höfð að leiðarljósi:

1) Hæfni nemanda til að skilja veruleikann (umhverfið, samfélagið, söguna og menninguna), sem hann hefur fæðst inn í, byggist á þeirri reynslu sem hann hefur orðið fyrir. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka reynsluheim nemandans.

2) Hæfni nemanda til að átta sig á sjálfum sér byggist á því hvaða mynd hann gerir sér af sjálfum sér (og öðrum) í eigin huga. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka hugarheim nemandans.

3) Hæfni nemanda til að mynda og þróa tengsl sín við aðra byggist á þeim félagsskap sem hann hefur tekið þátt í. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að virkja nemandann til þátttöku í félagsheimi sínum, þeim gildum og reglum sem þar ríkja (bls. 195).

Þar sem heimsóknin er í boði fyrir öll skólastig eru hæfniviðmið sem höfð eru að leiðarljósi samkvæmt miðstigi og að við lok 7. bekkjar hafi ákveðna færni. Færi gefst á að þjálfa m.a. eftirfarandi hæfniviðmið samfélagsgreina skv. Aðalnámskrá í heimsókninni; nemandi geti:

· greint samhengi heimabyggðar við umhverfi, sögu, menningu og félagsstarf, skýrt tengsl samfélags, náttúru, trúar og lífsviðhorfa fyrr og nú,
· notað mikilvæg hugtök til að fjalla um menningar- og samfélagsmálefni,
· rætt á upplýstan hátt um tímabil, atburði og persónur, sem vísað er til í þjóðfélagsumræðu,
· metið heimildir og ólík sjónarhorn í umfjöllun um sögu og samtíð,
· velt fyrir sér ýmsum þáttum sem sagan hefur mótast af, svo sem umhverfi, samfélagsskipulagi og þjóðfélagshreyfingum,
· dregið upp mynd af afmörkuðum efnisþáttum stórrar og smárrar sögu, nálægrar eða fjarlægrar,
· greint hvernig sagan birtist í textum og munum, hefðum og minningum,
· gert sér grein fyrir jafngildi sínu og annarra manna og rætt þýðingu þess,
· sett sig í spor fólks með ólíkan bakgrunn á völdum stöðum og tímum,
· tekið þátt í samfélagsmálum á ábyrgan hátt, (bls. 198 – 203).

Leitast er við að gera safnheimsóknina fræðandi og skemmtilega. Þannig er markmiðið að skemmtun geti fléttast fróðleik og uppgötvun nemendanna á safninu enda er lögð áhersla á að heimsóknin sé uppgötvunarleiðangur fyrir börnin. Þau eru hvött til að spyrja spurninga og tjá sig um hvernig þau tengja við sýningargripi, hugarheim, lífsviðhorf og siðferði fólks á ýmsum tímum Íslandssögunnar. 

 Fyrirkomulag heimsóknar

Tekið er á móti hópnum í anddyri safnsins. Útifatnaður er hengdur upp í fatahengi í kjallara. Hópurinn sest á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður börnin velkomin. Dagskrá heimsóknarinnar er kynnt sem og safnareglur.
Safnkennarinn leiðir hópinn um grunnsýningu safnsins, Þjóð verður til. Umræðuefni heimsóknarinnar tengjast lífi og menningu frá landnámi til nútímans, frásögnin felur í sér að skoða gripi sem varðveist hafa frá fyrri tíð. Til að mynda er fjallað um landnámsfólkið út frá kumlum og jarðfundnum gripum; vopnum, áhöldum og skarti. Sýningin er í tímaröð og oft vekur landnámstíminn mikinn áhuga. Þannig er gengið um sýninguna og áhugaefni nemendanna gripin til að fjalla um það sem þeim liggur á hjarta.

Heimsóknin tekur um 60 mínútur. Dagskrána er hægt að aðlaga öllum aldurshópum. Æskilegt er að ekki séu fleiri en 25 börn í hverjum hópi til þess að þau njóti heimsóknarinnar sem best.

Smellið hér til að bóka heimsókn.