Grunnskólar
  • Meira vinnur vit en strit

Unglingastig: Tæknibreytingar á 20. öld, lífsstíll og stríðsár

Dagskráin er einkum ætluð nemendum á unglingastigi en hana er hægt að aðlaga öllum aldurshópum. Í heimsókninni er fjallað um tæknibreytingar í aldanna rás, með áherslu á þær miklu breytingar sem urðu á 20. öld. Auk kynningar safnkennara er nemendum gefið tækifæri til sjálfstæðrar könnunar. Þannig gefst nemendum kostur á að handfjatla ýmsa 20. aldar muni í snertisafni safnfræðslunnar, leysa stutt verkefni í litlum hópi og skoða grunnsýningu safnsins á eigin vegum í lokin.

Smellið hér til að bóka heimsókn

Ýmis tækniþróun, aukin sérhæfing starfa og þróun verslunar og neyslumenningar er til umfjöllunar. Áhrif þróunarinnar á lífsstíl og dægurmenningu eru rædd og það hvernig samspil margra þátta, þ. m. t. hersetunnar, gerir öldina ólíka fyrri öldum.

Undirbúningur fyrir heimsókn og/eða eftirfylgni að henni lokinni

Skoða má vefsýningu sem sýnir andrúmsloft í Reykjavík á stríðsárunum hvað varðar tísku, dans og tónlist. Sjá hér: Tónlist, dans og tíska. Við bókun heimsóknar fá kennarar senda glærusýningu með ljósmyndum úr Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni með myndum sem sýna t.d. þróun í fjarskiptum, samgöngum, innviðum, verslun og matarmenningu yfir 20. öldina og nýta má sem kveikjur fyrir umræður í tíma.

Hæfniviðmið og menntagildi

Menntagildi samfélagsgreina eins og það er útskýrt í Aðalnámskrá grunnskóla er haft að leiðarljósi:

1) Hæfni nemanda til að skilja veruleikann (umhverfið, samfélagið, söguna og menninguna), sem hann hefur fæðst inn í, byggist á þeirri reynslu sem hann hefur orðið fyrir. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka reynsluheim nemandans.

2) Hæfni nemanda til að átta sig á sjálfum sér byggist á því hvaða mynd hann gerir sér af sjálfum sér (og öðrum) í eigin huga. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka hugarheim nemandans.

3) Hæfni nemanda til að mynda og þróa tengsl sín við aðra byggist á þeim félagsskap sem hann hefur tekið þátt í. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að virkja nemandann til þátttöku í félagsheimi sínum, þeim gildum og reglum sem þar ríkja. (Bls. 195).

Færi gefst á að þjálfa m.a. eftirfarandi hæfniviðmið samfélagsgreina skv. Aðalnámskrá í heimsókninni: Nemandi geti;

 

- sýnt fram á skilning á heimabyggð sinni og útskýrt samhengi hennar við umhverfi, sögu, menningu, listir, félagsstarf og atvinnulíf,
- aflað sér, hagnýtt, ígrundað og metið upplýsingar um menningar- og samfélagsmálefni, sem birtast í munnlegum flutningi, samræðum, texta og myndrænum búningi,
- rökrætt mikilvæg hugtök, sem notuð eru um menningar- og samfélagsmálefni,
- sýnt fram á þekkingu og gagnrýna sýn á tímabil, atburði, persónur, menningartengsl og þróunarferla á ýmsum tímum, sem vísað er til í þjóðfélagsumræðu,
- séð hvernig sagan hefur mótast af umhverfisþáttum og samfélagsskipulagi, þjóðfélagshreyfingum og hugmyndastefnum, viljaverkum og tilviljunum,
- gefið skýringar á og rökrætt gerð og þróun íslensks þjóðfélags í ljósi innlendra og alþjóðlegra áhrifaþátta,
sett sig í spor fólks með ólíkan bakgrunn og viðhorf, á ýmsum stöðum og tímum (bls. 198-203).

 

Fyrirkomulag heimsóknar

Tekið er á móti hópnum í anddyri safnsins. Útifatnaður er hengdur upp í fatahengi í kjallara. Hópurinn sest á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður nemendur velkomna. Dagskrá heimsóknarinnar er kynnt og farið yfir þær reglur sem gilda á safni.

Safnkennari leiðir hópinn um grunnsýningu safnsins, Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár. Safnkennari staldrar við á 4 – 5 stöðum og ræðir efnið út frá gripum sem því tengjast. Nemendum er gefið tækifæri til sjálfstæðrar könnunar t.d. með því að handfjatla ýmsa 20. aldar muni í snertisafni safnfræðslunnar, leysa stutt verkefni í litlum hópi og (ef allt gengur vel) skoða sýninguna á eigin vegum í lokin.

Heimsóknin tekur um klukkustund. Æskilegt er að ekki séu fleiri en 25 börn í hverjum hópi til að þau njóti heimsóknarinnar sem best.

Smellið hér til að bóka heimsókn