Grunnskólar

Miðstig: Ritöld og prentöld

Heimsóknin miðar að fræðslu sem tengist upphafi ritaldar á þjóðveldisöld, sagnaritun og þróun bókagerðar fram yfir siðskipti þegar prentiðnin er innleidd á Íslandi. Heimsóknin er samspil fræðslu safnkennara, samtali og sjálfstæðri athugun nemenda á sýningunni. Lögð er áhersla á að nemendur sæki sér þekkingu í sýningunni, í margmiðlunarefni, sýningargripi, texta og hljóðstöðvar.

Smellið hér til að bóka heimsókn

Að heimsókn lokinni hafa nemendur kynnst þjóðfélagsgerð tímabilsins og þróun þess, þau geta staðsett Snorra Sturluson í sögunni sem höfðingja og sagnaritara og þau gera sér grein fyrir hlutverki klaustra í menntun og menningu í landinu. Börnin hafa upplifað Þjóðminjasafnið sem áhugaverðan stað til að heimsækja.

Undirbúningur fyrir heimsókn og/eða eftirfylgni að henni lokinni

Til er fróðleg vefsíða sem heitir Handritin heima og fjallar hún „um íslensk miðaldahandrit og þann vitnisburð sem þau hafa að geyma um fornt handverk, fræðastarf og sagnaarf, myndlistarsögu, menningarástand og hugðarefni fólks frá fyrri öldum.“ (http://www.handritinheima.is/).

Hæfniviðmið og menntagildi

Menntagildi samfélagsgreina eins og það er útskýrt í Aðalnámskrá grunnskóla er haft að leiðarljósi:

1) Hæfni nemanda til að skilja veruleikann (umhverfið, samfélagið, söguna og menninguna), sem hann hefur fæðst inn í, byggist á þeirri reynslu sem hann hefur orðið fyrir. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka reynsluheim nemandans.

2) Hæfni nemanda til að átta sig á sjálfum sér byggist á því hvaða mynd hann gerir sér af sjálfum sér (og öðrum) í eigin huga. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka hugarheim nemandans.

3) Hæfni nemanda til að mynda og þróa tengsl sín við aðra byggist á þeim félagsskap sem hann hefur tekið þátt í. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að virkja nemandann til þátttöku í félagsheimi sínum, þeim gildum og reglum sem þar ríkja. (Bls. 195).

Færi gefst á að þjálfa m.a. eftirfarandi hæfniviðmið samfélagsgreina skv. Aðalnámskrá í heimsókninni:

Nemandi geti;

- gert grein fyrir einkennum og stöðu Íslands í heiminum í ljósi legu og sögu landsins, breytilegrar menningar, trúar og lífsviðhorfa,
- aflað sér, metið og hagnýtt upplýsingar um menningar- og samfélagsmálefni í margvíslegum gögnum og miðlum,
- rætt á upplýstan hátt um tímabil, atburði og persónur, sem vísað er til í þjóðfélagsumræðu,
- lýst einkennum og þróun íslensks þjóðfélags og tekið dæmi um mikilvæga áhrifaþætti,
- greint hvernig sagan birtist í textum og munum, hefðum og minningum,
- tjáð þekkingu sína og viðhorf með fjölbreyttum hætti, einn sér og í samstarfi við aðra,
- sýnt samferðafólki sínu tillitssemi og umhyggju. (Bls. 198 – 203).

Fyrirkomulag heimsóknar

Tekið er á móti hópnum í anddyri safnsins. Útifatnaður er hengdur upp í fatahengi í kjallara. Hópurinn sest á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður börnin velkomin. Dagskrá heimsóknarinnar er kynnt og farið yfir þær reglur sem gilda á safni. Safnkennari leiðir nemendur um fremri hluta grunnsýningar safnsins og dregur fram ýmis sjónarhorn á umfjöllunarefnið. Að því búnu er hópnum skipt í fimm hópa sem rannsaka skilgreinda þætti sýningarinnar út frá leiðbeiningum og upplýsingum á spjöldum sem safnkennari afhendir.

Að lokum er nemendum fylgt niður í anddyri og safnkennari kveður hópinn.

Heimsóknin tekur um klukkustund. Dagskráin er einkum ætluð börnum á miðstigi en hana er hægt að aðlaga öllum aldurshópum. Æskilegt er að ekki séu fleiri en 25 börn í hverjum hópi til þess að þau njóti heimsóknarinnar sem best.

Smellið hér til að bóka heimsókn