Grunnskólar

Heimsins hnoss

Skólahópum er boðið á sýningu sem stendur yfir til 17. september 2023; Heimsins hnoss, sem sýnir dæmigerðar jarðneskar eigur Íslendinga á 18. og 19. öld. 

Safnkennarar hafa mótað heimsókn fyrir grunnskólanemendur á sýninguna Heimsins hnoss, þar sem fjallað er um efnismenningu, sjálfbærni og verkþekkingu. Í heimsókninni er fyrri tíð borin saman við nútímann.

Færi gefst á að leita að svörum við mörgum spurningum, til dæmis:

  • Hvað er safn?
  • Hvað eru menningarverðmæti?
  • Hvað átti fólkið sem bjó í torfbæjunum?

Leitast er við að gera safnheimsóknina bæði fræðandi og skemmtilega. Nemendur eru hvattir til að spyrja spurninga og tjá sig um hvernig þau tengja við sýningargripi, hugarheim, lífsviðhorf og aðstæður fólks á 18. - 19. öld. 

Heimboðið er hugsað fyrir nemendur á yngsta og miðstigi (1. – 7. b.) en er að sjálfsögðu hægt að aðlaga að unglingastigi.

Nánari upplýsingar um sýninguna: Heimsins hnoss.

Hæfniviðmið og menntagildi

Menntagildi samfélagsgreina eins og þau eru útskýrð í Aðalnámskrá grunnskóla eru höfð að leiðarljósi:

1) Hæfni nemanda til að skilja veruleikann (umhverfið, samfélagið, söguna og menninguna), sem hann hefur fæðst inn í, byggist á þeirri reynslu sem hann hefur orðið fyrir. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka reynsluheim nemandans.

2) Hæfni nemanda til að átta sig á sjálfum sér byggist á því hvaða mynd hann gerir sér af sjálfum sér (og öðrum) í eigin huga. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka hugarheim nemandans.

3) Hæfni nemanda til að mynda og þróa tengsl sín við aðra byggist á þeim félagsskap sem hann hefur tekið þátt í. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að virkja nemandann til þátttöku í félagsheimi sínum, þeim gildum og reglum sem þar ríkja (bls. 195).

Í heimsókninni gefst færi á að þjálfa meðal annars eftirfarandi hæfniviðmið:

Við lok 4. bekkjar getur nemandi:

  • sagt frá einkennum og sögu heimabyggðar og tengslum við önnur svæði á Íslandi (samfélagsgreinar),
  • bent á dæmi um hvernig sagan birtist í munum og minningum (samfélagsgreinar),
  • skilið mismunandi tilgang myndlistar og hönnunar (list og verkgreinar)

Heimsmarkmið SÞ sem tengjast efninu

4 Menntun fyrir alla - 6 Hreint vatn og salernisaðstaða – 11 Sjálfbærar borgir og samfélög - 12 Ábyrg neysla og framleiðsla – 14 og 15 Líf í vatni og líf á landi.

Sjálfbærni og saga mannlífs

Upplagt er að tengja heimsóknina við námsefni um lífið í landinu fyrr á tímum, auk þátta eins og sjálfbærni og neysluvenja í nútíð og fortíð. Til er vönduð heimasíða með fræðsluefni og kennsluverkefnum fyrir grunnskóla þar sem fjallað er um þessa þætti með áherslu á textílmennt og sjálfbærni. Slóðin er gerasjalfur.is.

Bókun skólahópa í fræðslu í Þjóðminjasafni Íslands fer fram í gegnum bókunarsíðu safnsins.