Grunnskólar

Unglingastig: Regnbogaþráðurinn, hinsegin vegvísir um grunnsýningu Þjóðminjasafnsins

Regnbogaþráðurinn er hinsegin vegvísir í gegnum sýninguna Þjóð verður til - menning og samfélag í 1200 ár. Í honum er fjallað um hinsegin sögu á Íslandi. Með hugtakinu hinsegin er átt við kyn og kynverund sem samræmist ekki hefðum og venjum hvers tíma, þar á meðal fólk sem í dag væri kallað trans, intersex, kynsegin, samkynhneigt, tví-, pan- eða eikynhneigt.

Smellið hér til að bóka heimsókn

Markmiðið með Regnbogaþræðinum er að miðla upplýsingum um hinsegin líf og tilveru, sýna hvernig hugmyndir um kyn og kynhneigð taka á sig ýmsar myndir á ólíkum tímum og ekki síst að spyrja spurninga, skoða hið ósagða og hvetja gesti til gagnrýninnar hugsunar. Dagskráin er einkum ætluð nemendum á unglingastigi og framhaldsskólastigi. Heimsóknin tekur um klukkustund.

Ath.: Fyrir nemendur sem ekki komast í safnið, eða til upprifjunar eftir heimsókn, er hljóðleiðsögnin einnig aðgengileg á vef safnsins hér.

Hæfniviðmið og menntagildi

Menntagildi samfélagsgreina eins og það er útskýrt í Aðalnámskrá grunnskóla er haft að leiðarljósi:

1) Hæfni nemanda til að skilja veruleikann (umhverfið, samfélagið, söguna og menninguna), sem hann hefur fæðst inn í, byggist á þeirri reynslu sem hann hefur orðið fyrir. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka reynsluheim nemandans.

2) Hæfni nemanda til að átta sig á sjálfum sér byggist á því hvaða mynd hann gerir sér af sjálfum sér (og öðrum) í eigin huga. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka hugarheim nemandans.

3) Hæfni nemanda til að mynda og þróa tengsl sín við aðra byggist á þeim félagsskap sem hann hefur tekið þátt í. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að virkja nemandann til þátttöku í félagsheimi sínum, þeim gildum og reglum sem þar ríkja. (Bls. 195).

Færi gefst á að þjálfa m.a. eftirfarandi hæfniviðmið samfélagsgreina skv. Aðalnámskrá í heimsókninni: Nemandi geti;

- sýnt fram á skilning á mikilvægi þess að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, fyrir mannréttindum, félagslegu réttlæti, jöfnuði og helgi mannlegs lífs,
- grundað víxlverkun samfélags, stjórnmála, náttúru, trúar og lífsviðhorfa í tímans rás, í samhengi nærsamfélags og hnattvæðingar,
- rökrætt mikilvæg hugtök, sem notuð eru um menningar- og samfélagsmálefni,
sýnt fram á þekkingu og gagnrýna sýn á tímabil, atburði, persónur, menningartengsl og þróunarferla á ýmsum tímum, sem vísað er til í þjóðfélagsumræðu,
- gert sér grein fyrir hlutverki og margbreytileika fjölskyldna og gagnkvæmum áhrifum innan hennar á mismunandi tímum og menningarsvæðum,
- beitt hugtökunum kyn, kynhneigð og kynhlutverk og útskýrt hvaða hlutverki þau þjóna í kyngervi einstaklinga og sjálfsmynd,
- gert sér grein fyrir jafngildi sínu og annarra manna og útskýrt fyrir öðru fólki mikilvægi þess,
sett sig í spor fólks með ólíkan bakgrunn og viðhorf, á ýmsum stöðum og tímum (bls. 198-203).

Kennsluverkefni

Upplagt er að fá nemendum einfalt verkefni til að standa skil á heimsókninni. Til dæmis má biðja þá um að skrifa niður nokkur atriði svo sem:

  • Það sem kom mér mest á óvart 
  • Það sem ég vil vita meira um
  • Það sem vantar í frásögnina í Regnbogaþræðinum

Fyrirkomulag heimsóknar

Regnbogaþráðurinn er hljóðleiðsögn eða bæklingur sem leiðir gesti í gegnum grunnsýningu safnsins. Til þess að hlusta á hljóðleiðsögnina mæta nemendur með eigin snjallsíma og heyrnartól. (Það er líka hægt að fá lánað ef þörf krefur). Þegar á safnið er komið tekur safnkennari á móti hópnum og kynnir Regnbogaþráðinn með nokkrum orðum. Nemandinn tengist inn á gestanet Þjóðminjasafnsins og velur hljóðleiðsögn um Regnbogaþráðinn. Þráðurinn beinir gestinum að ellefu vörðum eða stöðum á grunnsýningunni þar sem staldrað er við og hlustað á fræðslu sem tengist efninu út frá viðkomandi stað á grunnsýningunni. Nemandinn styðst við kort af grunnsýningunni í símanum sínum, auk þess sem hver staður er merktur með límmiða með mynd af heyrnartólum í regnbogafánalitunum. Nemandi getur líka valið að hlusta ekki heldur styðjast við bækling með sama texta og lestinn er upp í hljóðleiðsögninni. Bæklingurinn liggur frammi í móttöku safnsins og nemendurnir mega taka eintak og nýta það í náminu.

Heimsóknin tekur um 60 mínútur. Æskilegt er að ekki séu fleiri en 25 nemendur í hverjum hópi til þess að þau njóti heimsóknarinnar sem best. Heimsóknir skólahópa eru ókeypis.

Þráðurinn var unninn í samvinnu við Samtökin '78.

Smellið hér til að bóka heimsókn