Grunnskólar

Yngsta stig: Skynfærin virkjuð

  • 2023-2024

Ferðalag um sýninguna Þjóð verður til

Hvernig var tíminn mældur í gamla daga? Og af hverju gekk fólk með ilmandi hálsmen? Hvernig léku börnin sér? Og getum við snert gjósku sem lagði heilan dal í eyði?
Heimsókn hentar börnum á yngsta stigi.

Smellið hér til að bóka heimsókn

Í þessari heimsókn er notast við ferðatöskur með ýmsum munum sem virkja skilningarvitin á leiðinni í gegnum safnið á meðan fjallað er um valda staði og muni á sýningunni Þjóð verður til. Börnin eru hvött til að tengja við eigin upplifun í nútíma og bera saman við sögur af fólki á fyrri öldum Íslandssögunnar.

Heimsóknin hentar öllum árgöngum á yngsta stigi. Lögð er áhersla á að heimsóknin sé uppgötvunarleiðangur og eru börnin hvött til að spyrja spurninga og tjá sig.

Bókun skólahópa í fræðslu í Þjóðminjasafni Íslands fer fram í gegn um bókunarsíðu safnsins.

Undirbúningur fyrir heimsókn og/eða eftirfylgni að henni lokinni

1. Gagnlegt getur verið að undirbúa þessa heimsókn til dæmis með leikjum sem virkja skilningarvitin.

a. Snerting: Veljið nokkra smáhluti og setjið í húfu. Eitt barn í einu bindur fyrir augun. Það fær að velja einn hlut úr húfunni og þarf að geta sér til um hvaða hlutur það er.

b. Þetta er hægt að endurtaka með smökkun, lykt, hljóðum og svo framvegis.

2. Fræðslupakkar safnfræðslunnar á heimasíðu safnsins: https://www.thjodminjasafn.is/thjonusta/hopar/skolar/fraedslupakkar

Hæfniviðmið og menntagildi

Menntagildi samfélagsgreina eins og það er útskýrt í Aðalnámskrá grunnskóla er haft að leiðarljósi:

1) Hæfni nemanda til að skilja veruleikann (umhverfið, samfélagið, söguna og menninguna), sem hann hefur fæðst inn í, byggist á þeirri reynslu sem hann hefur orðið fyrir. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka reynsluheim nemandans.

2) Hæfni nemanda til að átta sig á sjálfum sér byggist á því hvaða mynd hann gerir sér af sjálfum sér (og öðrum) í eigin huga. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka hugarheim nemandans.

3) Hæfni nemanda til að mynda og þróa tengsl sín við aðra byggist á þeim félagsskap sem hann hefur tekið þátt í. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að virkja nemandann til þátttöku í félagsheimi sínum, þeim gildum og reglum sem þar ríkja. (Bls. 195).

Færi gefst á að þjálfa m.a. eftirfarandi hæfniviðmið skv. Aðalnámskrá í tengslum við heimsóknina:

Við lok 4. bekkjar getur nemandi;

· tjáð hugsanir og skoðanir sínar og sett þær fram á viðeigandi hátt

· bent á tengsl valinna þátta í samfélagi, náttúru, trú og lífsviðhorfi, einkum í nærsamfélaginu

· gert sér grein fyrir að iðulega er hægt að komast að fleiri en einni niðurstöðu við úrlausn verkefna og að læra má af mistökum og nýta þau á skapandi hátt

· rætt um samfélagið og notað valin hugtök í því samhengi

Fyrirkomulag heimsóknar

Tekið er á móti hópnum í anddyri safnsins. Útifatnaður er hengdur upp í fatahengi í kjallara. Börnin mega fara úr skóm ef þau koma við opnun safnsins og þurrt er úti. Hópurinn sest á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður börnin velkomin. Dagskrá heimsóknarinnar er kynnt og farið yfir þær reglur sem gilda á safni. Safnkennari leiðir nemendur um grunnsýningu safnsins. Í heimsókninni er notast við litlar ferðatöskur með gripum sem má handfjatla til að auka skilning og virkja skynfærin. Að lokum er nemendum fylgt niður í anddyri og safnkennari kveður hópinn. Heimsóknin tekur um klukkustund.

Smellið hér til að bóka heimsókn