Tónlist, dans og tíska
Þetta efni tengist sýningunni Tónlist, dans og tíska. Myndirnar má skoða í samhengi við fræðslu um stríðsárin á Íslandi. Þá er upplagt að hlusta á tónlistina sem þá hefur hljómað, skoða tískuna, fræðast um dansinn og leita upplýsinga um einstaklingssögur frá tímabilinu.
Ljósmyndarinn
Vigfús Sigurgeirsson (1900 – 1984) var einn allra þekktasti ljósmyndari og kvikmyndagerðamaður Íslands um og eftir 1950. Samtímamenn hans þekktu best myndir hans af náttúru Íslands, þjóðlífi og viðburðum í samtímanum. Í ljósmyndasafni hans leynist sannarlega ýmislegt fleira og hér gefst tækifæri til að sjá brot af veröld sem var.Myndirnar á sýningunni
Andrúm menningarlífsins í Reykjavík kemur sterkt fram í þessum fáséðu myndum Vigfúsar Sigurgeirssonar ljósmyndara, frá því um og eftir seinni heimstyrjöld. Þarna má greina erlenda strauma í íslenskri menningu og skemmtanalífi og sviðsmyndin fær á sig heimsborgarablæ.Skemmtanir
Á síðdegisskemmtunum sýndu dansmeyjar ólíka dansa og tónlistamenn léku brakandi jass á hótelum borgarinnar. Þetta tímabil átti sínar stjörnur eins og söngkonuna Hallbjörgu Bjarnadóttur, austurríska píanóleikarann Carl Billich, listdansarana Ellen Kidd og Sif Þórz og MA- kvartettinn og Útvarpstríóið.Tískusýningar
Þá hélt Tískuvöruverslunin Gullfoss árlega sýningar á Hótel Borg og gaf tóninn fyrir stíl og efnisval í klæðaburði. Ballkjólar voru saumaðir úr moiré, tafti eða tjulli og hattar voru háir með fjöðrum.Tíðarandinn
Vigfús fangar vel þennan tíðaranda þar sem glæsileiki og fágun er alsráðandi. Hann hafði á fjórða áratugnum heimsótt Þýskaland þar sem hann kynntist kvikmyndagerð en öðlaðist líka nýja sýn í ljósmyndun. Í farteskinu við heimkomuna var ný vél af gerðinni Leica, sem bauð uppá aðra nálgun. Þannig gætir áhrifa þýsks expressionisma í ljósmyndum hans þar sem sterkir skuggar og ljós leika stórt hlutverk og auka áhrifamátt verka hans.Um Leica vélar
Árið 1924 hófst framleiðsla 35 mm filmu Leica myndavéla í Þýskalandi og urðu þær strax vinsælar. Þær voru léttar og sérstaklega hugsaðar fyrir landslagsmyndir í fjallgöngum. Þessi nýja tækni varð til þess að nú þurfti ekki lengur að taka myndir með myndavélum á þrífæti. Filmurnar sem notaðar voru í vélarnar voru kvikmyndafilmur sem var nýlunda. Filmur og glerplötur sem áður höfðu verið notaðar við ljósmyndun höfðu verið stórar, af sömu stærð og framkallaðar myndir. En þarna var komin myndavél með lítilli filmu (hver mynd aðeins 24x36 mm) og í framköllunarferlinu þurfti að stækka myndirnar á pappírinn. Til þess þurftu linsurnar að vera af miklum gæðum og filmurnar líka.Verkefni
Í ljósmyndum Vigfúsar gætir áhrifa þýsks expressionisma, þar sem sterkir skuggar og ljós leika stórt hlutverk og auka hrifnæmi verka hans. Kynnið ykkur þýskan expressionisma og takið svo ljósmyndir í þeim anda.Tónlist, dans og tíska
Staðsetning: Þjóðminjasafn Íslands - VeggurTímabil: 12.09.2020 - 14.03.2021.
Sýningarhöfundar: Ívar Brynjólfsson og Gunnar Geir Vigfússon
Textar: Linda Ásdísardóttir
-
Hljómsveit Hótel Borgar 1938.
-
Árni Kristjánsson píanóleikari 1939.
-
Hallbjörg Bjarnadóttir söngkona í Iðnó 1941.
-
Hljómsveit Hótel Borgar 1938.
-
Tískusýningin á Hótel Borg 1939.
-
Hallbjörg Bjarnadóttir söngkona.
-
Hljómsveit Hótels Íslands 1938. Carl Billich fyrir miðju.
-
Tískusýningin á Hótel Borg 1939.
-
Ellen Kidd dansmær 1939.
-
MA-kvartetinn í Gamla bíó 1939.
-
Sif Þórz dansari 1948.
-
Hljómsveit Hótels Íslands 1938.