Leikskólar

Þjóðminjasafnið – hvað er það?

  • Dagskrá ætluð 4-6 ára börnun

Dagskráin er ætluð 4 - 6 ára börnum. Leitast er við að gera safnheimsóknina að skemmtilegri og ævintýralegri upplifun.

Fyrirkomulag heimsóknar

Lögð er áhersla á að heimsóknin sé uppgötvunarleiðangur fyrir börnin. Þau eru hvött til að spyrja spurninga og tjá sig um hvernig þau tengja við sýningargripi. Í heimsókninni eru skilningarvitin heyrn, snerting og sjón virkjuð og líkaminn allur er með í hermileik. Að heimsókn lokinni hafa börnin kynnst hugtökunum safn og sýning og upplifað Þjóðminjasafnið sem áhugaverðan stað sem gaman er að heimsækja.

Leiðarljós um leikskólastarf skv. Aðalnámskrá leikskóla

Einkum er tekið mið af þessum leiðarljósum:

  • Leikskóli á að vera félags- og menningarlegur vettvangur þar sem þjóðararfur og gildi íslensks samfélags skipa veglegan sess.
  • Starfshættir leikskóla eiga að hvetja börn til að tjá sig og hlusta á frásagnir, sögur, ljóð og ævintýri.
  • Leikskóli á að vera samfélag þar sem hver einstaklingur nýtur virðingar og leggur sitt af mörkum.
  • Í leikskóla á að byggja á reynsluheimi barna og skapa þeim merkingarbæra reynslu.

Fyrirkomulag heimsóknar

Tekið er á móti hópnum í anddyri safnsins. Útifatnaður er hengdur upp í fatahengi í kjallara. Börnin mega fara út skóm ef þau koma við opnun sfnsins og þurrt er úti. Hópurinn sest á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður börnin velkomin. Dagskrá heimsóknarinnar er kynnt og velt upp ýmsum spurningum eins og hvað Þjóðminjasafnið sé eiginlega.

 

Safnkennarinn leiðir hópinn um grunnsýningu safnsins, Þjóð verður til, þar sem ýmsa forvitnilega gripi er að sjá. Sumum gripum á safninu fylgja ævintýralegar sögur sem börnunum eru sagðar. Styttum og líkneskjum á sýningunni er gefinn sérstakur gaumur og farið í leik þar sem hermt er eftir styttunum.

Við einn sýningaskápinn setjast börnin í hring og fá að handleika eftirgerð af gripnum í skápnum.

Í lok heimsóknar er hópnum boðið til Stofu þar sem við tekur frjáls leikur. Stofa er aðstaða fyrir dægradvöl, þar sem eru leikföng, bækur, búningar, litir og pappír.

Heimsóknin tekur um 45-60 mínútur. Dagskráin er ætluð 4 - 6 ára börnum. Æskilegt er að ekki séu fleiri en 15 börn í hverjum hópi til þess að þau njóti heimsóknarinnar sem best.

Bókun skólahópa í fræðslu í Þjóðminjasafni Íslands fer fram í gegnum bókunarsíðu safnsins.