Húsasafn
  • Arngrimsstofa

Arngrímsstofa í Svarfaðardal

  • Opið daglega frá kl. 8-18.

 Á Tjörn í Svarfaðardal er stórbýli og kirkjustaður. Þar var prestssetur fram til ársins 1917. Í brekku beint upp af Tjörn er kotbýlið Gullbringa, sem byggðist á 18. öld. Þar stendur enn framhús, sem byggt var framan við gamla bæinn og þar bjó Arngrímur Gíslason málari (1829-87) síðustu ár ævi sinnar ásamt seinni konu sinni og börnum. 

Arngrímur Gíslason fæddist í Reykjahverfi í Þingeyjasýslu, en bjó víða um land. Hann er talinn með merkustu alþýðumálurum landsins. Málaði hann einkum mannamyndir og altaristöflur. Fátækur byggði hann vinnustofu sína við enda framhúss Gullbringubæjarins árið 1884. Húsið er 2,4 x 2,5 metrar að innanmáli og 2,1 m undir loft. Torf er á þaki og hlaðnir torfveggir meðfram tveimur húshliðum. Um er að ræða snoturt lítið timburhús sem fullvíst má telja elstu vinnustofu málara hér á landi. Arngrímsstofa var endurbyggð árið 1983 í minningu dr. Kristjáns Eldjárns, kostað af Seðlabanka Íslands og hefur húsið síðan verið í umsjá Þjóðminjasafns Íslands, sem sinnt hefur endurbótum á því.   Byggingarlýsingu Guðmundar L. Hafsteinssonar er að finna hér.

Húsið er opið gestum á eigin ábyrgð daglega 8-18. Vinsamlegast gangið vel um.