Húsasafn
  • Burstafell

Bustarfell í Vopnafirði

  • Frá 1. júní til 20. september er opið alla daga frá kl. 10:00 - 17:00. Frá 21. september til 31. maí er opið eftir samkomulagi.

Á Bustarfelli er stór og glæsilegur torfbær og hefur hann verið í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1943. Minjasafnið á Bustarfelli er til húsa í bænum en þar má meðal annars sjá gamla muni úr bænum og úr eigu Bustarfellsættarinnar.  Safnið er opið 1. júní - 20. september alla daga frá kl. 10:00 - 17:00. 21. september - 31. maí er opið eftir samkomulagi. Vinsamlegast hafið samband í síma 844-1153 og fáið nánari upplýsingar.

Aðgangseyrir: Fullorðnir: 1200 kr. 9-12 ára: 300 kr.
8 ára og yngri: Frítt. Eldri borgarar: 900 kr. Hóptilboð ef bókað er fyrirfram: 900 kr. á mann

Bustarfell er fornt höfuðból og ein stærsta jörð í Vopnafirði. Jörðin hefur verið í sjálfsábúð sömu ættar frá 1532. Torfbærinn sem nú stendur er að stofni til mjög gamall, jafnvel að hluta til frá því hann var endurbyggður eftir mikinn bruna 1770, en um aldur einstakra bæjarhúsa er erfitt að fullyrða með nokkurri vissu.

BustafellÝmsar breytingar hafa verið gerðar á húsaskipan á liðnum öldum. Að stórum hluta er bærinn þó eftir Einar Einarsson staðarbónda og Árna Jónsson snikkara frá Hólum í Vopnafirði frá seinni helmingi 19. aldar. Búið var í bænum fram til 1966 og ber hann þess nokkur merki. Vindrafstöð var sett upp 1942 og rafmagn til ljósa leitt í bæinn. Ári síðar var vatnsleiðslu komið í bæinn og 1944 var miðstöðvarhitun komið þar fyrir.

Bustafell 1930

Minjasafnið á Bustarfelli er til húsa í bænum og eru munir úr búi Methúsalems Methúsalemssonar bónda á Bustarfelli (1889-1969) uppistaða safnsins. Hann lagði mikla rækt við að halda til haga gömlum munum úr bænum og í eigu Bustarfellsættarinnar. Minjasafnið var gert að sjálfseignarstofnun 1982 og munirnir þá afhentir Vopnfirðingum að gjöf. Byggingarlýsingu Guðmundar L. Hafsteinssonar er að finna hér.