Húsasafn

Galtastaðir fram í Hróarstungu

  • Bærinn er ekki opinn almenningi.

Á Galtastöðum fram er lítill torfbær frá 19. öld með svokallaðri fjósbaðstofu. Baðstofuloftið var þá yfir fjósinu og ylurinn af kúnum nýttist til húshitunar. Bærinn er lokaður fyrir almenning.

Hróarstunga er spildan kölluð sem verður milli Jökulsár á Dal og Lagarfljóts og er landið víðast mýrlent en hæðir eru á milli mýrarflákanna. Steindrangar í Álftavatni heita Gullsteinar, og segja sögur að að landnámsmaðurinn Galti hafi komið gullkistum sínum þar fyrir og ennfremur að ekki megi hrófla við kistunum því annars muni bærinn á Galtastöðum brenna.

Á Galtastöðum fram er lítill torfbær frá 19. öld af svokallaðri Galtastaðagerð, sem hvorki telst til sunnlenskrar né norðlenskrar gerðar torfbæja, heldur á rætur í fornugerð og í stað þess að baðstofa liggi samsíða öðrum framhúsum, snýr hún, torfklædd, samsíða hlaði.

Í bænum er fjósbaðstofa, reist 1882 af Jóni Magnússyni snikkara, þar sem niðri er fjós en baðstofa er uppi yfir og nýttist ylurinn frá kúnum til húshitunar. Áður mun hafa verið tvíbýlt á jörðinni og stóðu þá tvær baðstofur að baki núverandi húsa. Bærinn hefur verið í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1976.  Byggingarlýsingu Guðmundar L. Hafsteinssonar er að finna hér