Húsasafn

Glaumbær í Skagafirði

  • Frá 20. maí til 20. september er opið alla daga frá kl. 10-18. Frá 21. september til 20. október er opið alla virka daga kl. 10-16.

Sýningar í Glaumbæ eru opnar sem hér segir 2021:

20. maí - 20. september 10:00-18:00 Alla daga
21. september - 20. október 10:00-16:00 Virka daga
21. október - 31. mars Eftir samkomulagi  
1. apríl - 19. maí   10:00 - 16:00 Virka daga

Aðgangseyrir:

1700 kr. Einstaklingar 
1500 kr. hópar, námsmenn, eldri borgarar og öryrkjar
Ókeypis fyrir 17 ára og yngri. Sjá nánar: http://www.glaumbaer.is/is/safnid

Sýningar í Glaumbæ eru opnar alla virka daga 10 til 16, frá 1. apríl til 19. maí. Frá 20. maí til 20. september er opið alla daga á milli 10 og 18. Frá 21. september til 31. október er opið alla virka daga milli 10 og 16. Utan þessa tíma er opið eftir samkomulagi.

Bærinn í Glaumbæ er samstæða þrettán húsa og á bæjarhólnum, þar sem bærinn stendur, hafa hús staðið í mörg hundruð ár. Glaumbær er torfríkasti bær landsins þar sem grjót í veggjahleðslu er vanfundið í Glaumbæjarlandi á meðan torfrista er góð. Veggirnir í bænum eru hlaðnir úr klömbrum, sniddu og streng en rekaviður og innfluttur viður eru í grindum og þiljum. Bæjarhúsin eru misgömul að efni og gerð en fólk byggði húsin eftir því hvort þörf var á stærri eða minni húsum er kom að endurnýjun.

Sagnir herma að Snorri Þorfinnsson, sonur Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur, hafi byggt fyrstu kirkjuna í Glaumbæ í kringum árið 1000. Árið 2002 fundust leifar húsa frá 11. öld í túninu austur af bæjarhólnum og virðist sem bæjarhúsin hafi verið flutt um set um 1100 og færð þangað sem þau eru nú.

Það skipti sköpum fyrir varðveislu Glaumbæjar að breski Íslandsvinurinn Mark Watson (1906-1979) gaf 200 sterlingspund til varðveislu bæjarins árið 1938. Bærinn var síðan friðlýstur árið 1947 og sama ár fluttu síðustu íbúarnir út. Árið 1948 var Byggðasafn Skagfirðinga stofnað og fékk það Glaumbæ fyrir starfsemi sína, samkvæmt samningi við Þjóðminjasafnið, en bærinn tilheyrir Húsasafni Þjóðminjasafnsins. Fyrsta sýning Byggðasafnsins var síðan opnuð í Glaumbæ þann 15. júní árið 1952 og fjallaði hún, þá sem nú, um mannlíf í torfbæjum.  Byggingarlýsingu Guðmundar L. Hafsteinssonar er að finna hér.

Glaumbær í Skagafirði

Í bænum er elsta sýning Byggðasafns Skagfirðinga til húsa. Sýningin heitir „Mannlíf í torfbæjum" og þar er reynt að að koma öllu fyrir með svipuðu móti og gerðist á myndarheimilum á 19. öld. Tvö 19. aldar timburhús, svokallað Áshús og Gilsstofa, hafa verið flutt að Glaumbæ og eru notuð í þágu Byggðasafnsins.