Húsasafn
  • Keldur

Keldur á Rangárvöllum

 Á Keldum er torfbær af fornri gerð og er hann jafnframt eini stóri torfbærinn sem varðveist hefur á Suðurlandi. Timburgrind skálans er með stafverki, prýdd strikum af rómanskri gerð. Úr skálanum liggja jarðgöng, sem talin eru frá 12. eða 13. öld og eru líklega undankomuleið á ófriðartímum. Auk þess hefur fjöldi útihúsa varðveist. Opið  1. júní - 31. ágúst alla daga 10 -18. Verð: 1200 kr á mann. 1000 kr fyrir hópa (10+).

Keldur er einstök heild bæjar- og útihúsa frá fyrri tíð. Bæjarhúsin eru af elstu varðveittu formgerð torfhúsa, þar sem framhúsin snúa langhlið að hlaði. Þetta svipmót hefur haldist allt frá miðöldum. Kjarni húsanna er frá 19. öld en víða í þeim má finna eldra timbur, stundum með strikum til skrauts. Ártalið 1641 er skorið á syllu í skálanum. Í mörgum bæjarhúsanna er timburgrindin með fornu smíðalagi, svonefndu stafverki, þar sem láréttar syllur eru felldar í stoðir með sérstökum hætti.Grafin hafa verið upp jarðgöng sem liggja úr skála niður að læk, líklega gerð sem undankomuleið á ófriðartímum 11.-13. aldar.Keldur  Keldur draga nafn af uppsprettulindum sem koma víða fram undan túninu. Bærinn og ábúendur hans koma við sögu í fornum bókmenntum Íslendinga, m.a. Njáls sögu, Sturlunga sögu og Þorláks sögu. Hér var eitt af höfuðbólum Oddaverja en höfðingi þeirra, Jón Loftsson (d. 1197), bjó á Keldum síðustu æviár sín.Síðasti ábúandinn í gamla bænum var Skúli Guðmundsson, en hann bjó hér til dauðadags 1946. Síðan hefur bærinn verið hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Í bæjarhúsunum getur að líta búshluti úr eigu ábúenda á Keldum.