Húsasafn
  • Keldur

Keldur á Rangárvöllum

  • Frá 1. júní til 31. ágúst er opið alla daga frá kl. 10-17.
Hægt er að heimsækja Keldur yfir sumartímann, frá 1. júní til 31. ágúst. 

Á Keldum er að finna sögufrægan torfbæ af fornri gerð og hann er jafnframt eini stóri bærinn sem varðveist hefur á Suðurlandi. Úr skálanum liggja jarðgöng, sem talin eru frá 12. eða 13. öld og eru líklega undankomuleið á ófriðartímum. Auk þess hefur fjöldi útihúsa varðveist.Auk bæjarhúsa og kirkju eru þar skemmur, smiðja, myllukofi, fjós, hesthús, fjárrétt, jarðgöng o.fl. Bærinn á Keldum og ábúendur hans koma við sögu í nokkrum af þekktustu bókum Íslendinga, m.a. Njáls sögu, Sturlunga sögu og Þorláks sögu. Þar var jafnframt eitt af höfuðbólum Oddaverja. Höfðingi þeirra, Jón Loftsson (d. 1197), bjó á Keldum síðustu ár ævi sinnar. Síðasti ábúandinn í gamla bænum var Skúli Guðmundsson, sem bjó þar til dauðadags 1946. Allar götur síðan hefur bærinn verið hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands.

Keldur draga nafn sitt af uppsprettulindum sem koma víða fram undan túninu. Bæjar- og útihúsin eru einstakar menjar um lífið fyrr á öldum. Bæjarhúsin eru af elstu varðveittu formgerð torfhúsa, þar sem langhlið framhúsa snýr að hlaði. Þetta svipmót hefur haldist allt frá miðöldum.

Kjarni húsanna er frá 19. öld og í þeim má finna eldra timbur sem skorið hefur verið í til skrauts. Á einum stað í skálanum hefur ártalið 1641 verið rist í syllu. Í mörgum bæjarhúsanna er timburgrindin jafnframt með fornu smíðalagi, svonefndu stafverki. Þá er í bæjarhúsunum að finna búshluti úr eigu fyrri ábúenda á Keldum. Úr skálanum liggja einnig jarðgöng niður að læk og hafa þau líklega verið grafin sem undankomuleið á ófriðartímum á 11.-13. öld.

Byggingarlýsingu Guðmundar L. Hafsteinssonar er að finna hér.