Húsasafn
  • Kirkjuhvammskirkja

Kirkjuhvammskirkja

  • Kirkjan er ekki opin almenningi.

Skammt upp af Hvammstanga er Kirkjuhvammskirkja. Jörðin Kirkjuhvammur á Vatnsnesi, sem í fornum skjölum er nefnd Hvammur í Miðfirði, var talin góð jörð en þó ekki , stórbýli. Kirkjuhvammur var talinn þingstaður árið 1406. Búskap var hætt í Kirkjuhvammi árið 1947 og húsin jöfnuð við jörðu um 1960. Kirkjan er eina húsið frá fyrri tíð sem nú er á jörðinni. Kirkjan er lokuð almenningi.

Kirkju er fyrst getið í máldaga árið 1318 og sennilega hefur alltaf verið um torfkirkjur þar að ræða, sem staðið hafa í kirkjugarðinum á svipuðum stað og sú sem þar stendur nú.

Kirkjuhvammskirkja er úr timbri með bindingsverki og veglegum turni, smíðuð af Birni Jóhannssyni og Stefáni Jónssyni frá Syðstahvammi sumarið 1882, en sagt er að ekkert sumar hafi komið þá á Norðurlandi og snjóað í hverri sumarviku. Kirkjan er af yngri gerð kirkna með turna á þaki. Kirkjuhvammskirkja var sóknarkirkja til ársins 1957, en það ár var ný kirkja vígð á Hvammstanga. Hrörnaði gömlu kirkjunni fljótt og stefndi í að hún yrði rifin. Velunnarar hennar lagfærðu hana lítilsháttar árið 1964 og kirkjan kom í umsjá Þjóðminjasafnsins árið 1976. Hófst umfangsmikil viðgerð á henni árið 1992. Hún var endurvígð sumarið 1997 að þeirri viðgerð lokinni. Byggingarlýsingu Guðmundar L. Hafsteinssonar er að finna hér