Húsasafn
  • Laufás

Laufás í Eyjafirði

  • Frá 1. júní til 31. ágúst er opið alla daga frá kl. 11-17

Torfbærinn í Laufási er gott dæmi um húsakynni á auðugu prestssetri á síðari hluta 19. aldar, en  hann á sér óslitna byggingasögu allt aftur á miðaldir. Munirnir sem eru í bænum nú eru flestir frá nágrannabæjunum en nokkrir eru þó frá Laufási. Minjasafnið á Akureyri sér um starfsemina í bænum.  Sumar opnun er frá 1. júní - 31. ágúst. Opið alla daga frá kl. 11-17. Aðgangseyrir er. 1800 kr, 900 fyrir eldriborgara. Frítt fyrir öryrkja og börn 17 ára og yngri. 

Torfbærinn eða öllu heldur torfklæddu timburhúsin í Laufási eiga sér óslitna byggingasögu allt aftur á miðaldir. Bæjarhús hafa verið endurbyggð með reglulegu millibili eftir því sem ástæða hefur þótt til. Í núverandi mynd varð bærinn að mestu til við endurnýjun á tímum sr. Björns Halldórssonar sem var prestur og prófastur í Laufási á árunum 1853-1882.

Líklegt má telja að þeir sr. Björn Halldórsson prófastur, Tryggvi Gunnarsson smiður, síðar bankastjóri og Jóhann Bessason smiður frá Skarði hafi í sameiningu lagt á ráðin um útlit framhúsanna. Tryggvi var sonur sr. Gunnars Gunnarssonar, forvera sr. Björns í embætti og lærimeistari smiðsins. Jóhann Bessason var aðalsmiður flestra bæjarhúsa í Laufási að frátöldu brúðarhúsi og búri. Hið veglega baðstofuhús smíðaði hann árið 1867 en framhúsin og smiðjuna 1877. Hann var afkastamikill smiður og reisti einnig fjölmörg hús víða um héraðið. Flest húsin í Laufásbæ eru með bindingsverksgrind en í hluta bæjarganga getur að líta stafverk og í brúðarhúsi er blending þessara tveggja smíðaaðferða að finna. 

LaufásSyðsti stafninn er byggður nokkru síðar en hinir og er með öðru lagi. Aðrir framstafnar Laufásbæjar eru jafnháir og er glugga og dyraskipan sambærileg frá húsi til húss. Skiptast þar á stafnar með dyrum annars vegar en gluggum hins vegar. Framþilin voru upphaflega rauðmáluð en hafa verið ljósmáluð frá því á fyrri hluta 20. aldar. Nýtt prestssetur var reist árið 1936 og lauk þá búsetu í gamla
bænum í Laufási. Hann varð hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands árið 1948 og hefur safnið staðið reglulega fyrir viðamiklum viðgerðum á honum.  Byggingarlýsingu Guðmundar L. Hafsteinssonar er að finna hér

Laufás innaníMununum sem nú eru í bænum var safnað til hans snemma á sjöunda áratugnum og eru margir þeirra komnir frá nágrannabæjunum auk nokkurra frá staðnum sjálfum. Höfðu systurnar Sigrún og Sigurbjörg Guðmundsdætur frumkvæði að þeirri söfnun.
 Minjasafnið á Akureyri sér um sýningar og daglegan rekstur í Laufásbæ.
Laufáskirkja var byggð árið 1865 af Tryggva Gunnarssyni og Jóhanni Bessasyni. Hún er undir áhrifum frá klassískum byggingarstíl, ekki síst Frúarkirkju í Kaupmannahöfn (vígð 1829), og er hún, eins og bærinn, vitnisburður um stórhug staðarhaldara á sínum tíma. Kirkjan er búin mörgum góðum gripum, m.a. predikunarstól frá árinu 1698 eftir Illuga Jónsson.