Nesstofa við Seltjörn
Nesstofa er fyrsti íslenski landlæknisbústaðurinn, hlaðin úr tilhöggnu grjóti á árunum 1761-1767. Í Nesstofu hófst opinber lyfsala árið 1772 og þar starfaði einnig ljósmóðir. Húsið komst í einkaeign þegar embættin tvö voru flutt til Reykjavíkur upp úr 1830.
Nesstofa er ekki opin almenningi.
Í norðurhluta er útbygging á tveimur hæðum, og er gengið úr rannsóknarstofunni niður á neðri hæðina, sem er með hvelfdu lofti úr hraunhellum, er lagðar voru í kalkblöndu og loftið síðan sléttað með kalklími. Var þetta einsdæmi hér á landi á þessum tíma. Á efri hæð voru íveruherbergi.
Árið 1774 var lyfsala aðgreind frá landlæknisembættinu. Í kjölfar þess fékk Björn Jónsson, lyfsali, hálfa jörðina til ábúðar og var Nesstofu skipt á milli þessara embætta. Var sú skipting eftir endilöngu húsinu. Í Nesstofu starfaði einnig ljósmóðir. Húsið komst í einkaeign þegar embættin tvö voru flutt til Reykjavíkur upp úr 1830.
Undir stjórn þjóðminjavarðar fóru fram viðamiklar viðgerðir á Nesstofu á Seltjarnarnesi. Mest var unnið í eystri hluta hússins en einnig í öðrum hlutum þess sem og ytra byrði. Í viðgerðunum var sérstök áhersla lögð á að varðveita byggingasögulegar heimildir með aðferðum forvörslu. Auk þessa var gert átak í næsta umhverfi Nesstofu.
Kynningarbæklingur um Nesstofu.
Umhverfi
Þegar hafist var handa um byggingarframkvæmdir til undirbúnings landlæknisbústað í Nesi við Seltjörn árið 1760 var töluverð byggð á svæðinu. Magn húsa kemur fram í úttekt um 1780. Þarna stóð álitlegur torfbær sem í voru bæjardyr, stofa austur þaðan, skáli vestur úr bæjardyrum gegnt stofu, skálahús þar inn af , eldhús inn af bæjardyrum, göng frá eldhúsi til baðstofu og vegleg baðstofa. Einnig var skemma vestan við bæinn, fjós (óljóst hvar), heygarður áfastur því. Þá var hjallur norður við sjó, húsmannahús vestan við bæinn, húsagarður frá húsmannahúsi að norðaverðu til kirkjugarðs. Húsmannahús var norðan við torfbæinn en því var breytt milli 1762 og 1780 og annað tómthús byggt í staðinn, kallað Nýlenda.
Austan við torfbæinn var 68 faðma torfgarður en vestan við 36 faðma grjótgarður. Allmargar hjáleigur voru einnig á svæðinu. Einnig eftirfarandi hús sem voru ný á jörðinni: Svokallað Astronomiskt hús, Chirurgi Jóns Einarssonar hús, hjallur við sjóinn, nýr og hesthús.
Þættir úr byggingarsögu
Magnús Gíslason amtmaður á Bessastöðum var mjög velviljaður framkvæmdum við Nesstofu og má sjá dæmi um það í skrifum hans í janúar 1764:
„Til Bygningen paa Ness er ingen Muursteen til Skorsteeners opförelse oversendt, hvor fore ieg loed nedbryde en heel Skorsteen, og noget af en anden paa Bessested og overföre til Ness, hvor ved Skorsteenene der ere opförte.“ (Úr Þjskjs. Rtk. Isl. Journ. B, 2033)
Þegar staðið er framan við skorsteinana á efri hæðinni má velta fyrir sér úr hvaða húsi á Bessastöðum múrsteinarnir eru og hvernig þeir voru fluttir að Nesi. Ákveðnir gallar komu snemma í ljós á Nesstofu fáum ártugum eftir að hún var byggð. T.d. sprungu innri þverveggir töluvert og menn ekki á eitt sáttir um skýringuna í fyrstu.
Ástæðuna fyrir sprungunum taldi Skúli Magnússon þá að ekki hefði verið grafið eins djúpt fyrir undirstöðum þeirra veggja eins og útveggja og veggjarins langs eftir húsinu. Í viðgerðum hússins 2006 var einmitt þetta staðfest og undirstöður þessara veggja styrktar.
Austurinngangur og eldhús á viðgerðarstigi. Við inngang í stofu, t.v. má greina sprungur þær sem embættismenn á 18. öld glímdu við. Ótvíræð ummerki um staðsetningu steinveggjar má greina í lofti, milli austurinngangs og eldhússglugga.
Svipmyndir úr nokkrum herbergjum Nesstofu á viðgerðarstigi hússins.
Suðaustur herbergi á annarri hæð. Upphafleg stærð herbergisins er skýr út frá ummerkjum í skarsúð. Staðsetning bindingsverksveggjar milli framlofts og herbergis mátti ráða af ummerkjum í gólfi.