Húsasafn
  • Sæluhúsið

Sæluhús við Jökulsá á Fjöllum

  • Opið daglega frá kl. 8-18. Gestir heimsækja húsið á eigin ábyrgð.

Jökulsá á Fjöllum var mikill farartálmi fyrr á öldum. Áin var hvergi talin reið, en áður voru lögferjur á stöðum þar sem umferð var mest. Ráðist var í að reisa sæluhúsið um 1880, úr steini. Talað var um að reimt væri í húsinu og að þar væri um að ræða dýr á stærð við vetrungskálf, kafloðið og ægilegt. Húsið er opið gestum á eigin ábyrgð daglega 8-18. Vinsamlegast gangið vel um.

Sæluhúsið var reist árið 1883 úr tilhöggnu grjóti úr nánasta umhverfi. Timbur, kalk, sement og önnur byggingarefni í húsið voru flutt alla leið frá Vopnafirði, Húsavík og Akureyri með aðkomu fjölda manna. Lágreistur kjallarinn var notaður sem hesthús og var inngangsskúr, bíslag, áður yfir kjallaratröppum. Notkun hússins varð þó ekki sem skyldi sökum frásagna um reimleika. Húsið er hluti af sögu-sviði Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson, þar sem greinir frá ferðum Fjalla-Bensa, Benedikts Sigurjónssonar.

Gamalíel Einarsson var fenginn að byggingu sæluhússins sumarið 1883 sem aðalsmiður hússins en Sigurbjörn Sigurðsson, Jakob Sigurgeirsson og Friðrik Guðmundsson áttu þar einnig stóran hlut. Jakob Hálfdanarson mun hafa ráðið staðsetningu og útliti hússins. Landssjóður veitti fé til smíðinnar.
Þessi umbrotatími jarðskorpunnar var einnig tímabil nýrra hugmynda um byggingatækni á Íslandi og var bygging steinhúsa hluti af þeirri nýbreytni. Steinhlaðin hús voru tekin að rísa hér og þar á Norðausturlandi nokkru áður en sæluhúsið reis af grunni. Meðal þeirra voru Þverárkirkja í Laxárdal (1878) og prestsbústaður á Sauðanesi (1879).
Bygging Alþingishússins í Reykjavík árið 1881 hafði einnig umtalsverð áhrif til frekari fjölgunar steinhúsa á Íslandi.
Sæluhúsið  hefur verið í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands frá 1988.

Byggingarlýsingu Guðmundar L. Hafsteinssonar er að finna hér.