Húsasafn

Selið í Skaftafelli

  • Opið daglega frá kl. 8-18. Gestir heimsækja húsið á eigin ábyrgð.

 Þjóðgarðurinn í Skaftafelli er vestast í Öræfasveit. Talið er að einbýli hafi verið í Skaftafelli fram á öndverða nítjándu öld. Byggð var í Seli árið 1832 en öll byggð fluttist skömmu síðar upp í hæðina vegna ágangs Skeiðarár.  Húsið er opið gestum á eigin ábyrgð daglega 8-18. Vinsamlegast gangið vel um.

Langt fram á síðustu öld var Öræfasveit einhver einangraðasta byggð landsins. Svo mikil var einangrunin að talað var um að Öræfi væru ein af þeim fáu byggðum sem mýs hefðu aldrei komist í. Varð þeirra ekki vart fyrr en eftir 1960. Búskaparhættir héldust með hefðbundnum hætti mann fram af manni. Hella á þök var víða sótt um langan og torsóttan veg og menn nýttu reka af fjörum í húsgrindur og til innréttinga bæjanna.

Selið er lítill torfbær af sunnlenskri gerð, reistur af Þorsteini Guðmundssyni bónda árið 1912 og er ágætt sýnishorn af bæjum eins og þeir gerðust í Öræfasveit fram á þriðja áratug tuttugustu aldar. Í bænum er fjósbaðstofa á lofti þar sem menn nýttu sér ylinn frá kúnum frá fjósinu sem er undir baðstofunni. Samtengd hús eru stofa og útieldhús. Skammt frá bænum eru stórar hlöður með afar fornu byggingarlagi, þar sem þakið er svokallað þríása með einn þakás eftir mæni og sinn ásinn hvorum megin við hann og eru þeir bornir uppi af innstöfum. Raftar ganga frá mæni og niður á veggi, en þakhella er þar á ofan og torf efst.

Síðustu ábúendur í Selinu fluttu úr bænum árið 1946, og lagðist hann þá í eyði. Selið hefur verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá árinu 1972, og hefur bærinn verið endurbyggður á þess vegum.

Byggingarlýsingu Guðmundar L. Hafsteinssonar er að finna hér.