Húsasafn
  • Skipalón

Skipalón í Eyjafirði

  • Húsið er ekki opið almenningi.

Á Skipalóni eru tvö hús í vörslu Þjóðminjasafns Íslands. Þar bjó Þorsteinn Daníelsson (1796-1882) smiður og mikill athafnamaður. Hann var brautryðjandi á sviði jarðræktar í Eyjafirði og upphafsmaður að þilskipaútgerð við Eyjafjörð. Smíðaði Þorsteinn bæði húsin á Skipalóni og ýmis önnur merk hús fyrir norðan, auk báta og ýmsa gripi úr tré og járni. Íbúðarhúsið, sem gengur undir nafninu Lónsstofa, reisti hann árið 1824 og nítján árum síðar smíðahúsið. Eins og nafnið bendir til hafði Þorsteinn þar verkstæði sitt. Lokað almenningi.

Í upphafi sjöunda áratugarins var mikill áhugi á því hjá Iðnaðarmannasamtökunum á Akureyri undir forystu Sveinbjörns Jónssonar sem síðar stofnaði hf Ofnasmiðjuna í Reykjavík, að flytja smíðahúsið á lóð Norðlenzka byggðasafnsins á Akureyri þar sem það stæði sem minnisvarði um “merkilegan eyfirzkan iðjuhöld og búnaðarfrömuð á fyrri hluta 19. aldar, sem jafnframt var síhvetjandi sveitunga sína til dáða og athafna, en sagði óþrifnaði og óreglu stríð á hendur.” (Íslendingur 26.10. 1962). Af þessum áformum varð þó ekki.Skipalón

Smíðahúsið er tjargað timburhús með rennisúð á útveggjum og tvöfaldri þakklæðningu, skarsúð að neðan en rennisúð ofan á. Geymsluloft er yfir jarðhæð og í vesturenda hússins er tvöfalt eldstæði með gangi á milli, hlaðið úr múrsteinum og sameinast reykpípurnar í skorsteini á efri hæð hússins. 

Þjóðminjasafnið tók Smíðahúsið í sína vörslu árið 1985.