Hvenær
April 8, 2025
kl. 10 - 17
Hvar
Fyrsta hæð

Á umliðnum árum hefur Þjóðminjasafnið verið vettvangur fyrir nemendur grunnskóla til að sýna listaverk á Barnamenningarhátíð. Sýningar hátíðarinnar í ár verða veglegar og glæsilegar að vanda.

Hagaskóli stendur fyrir sýningunni Hvers virði er líðan mín? Landakotsskóli stendur aftur á móti fyrir sýningunni Plast og brot úr framtíð og Vesturbæjarskóli fyrir sýningunni Vatnaskrímslin.

Hvers virði er líðan mín?

Sýnd verða listaverk eftir nemendur í 8. bekk í Hagaskóla.

Líðan unglinga hefur mikið verið í umræðunni og með þessu verkefni fá þau sjálf orðið í þeirri umræðu. Verkefnið er samþætting á milli textíl- og sjónlista, þar sem nemendur nota blandaða tækni; teikningu, útsaum og málun. Unnið var út frá verkum listakonunnar Söru Vilbergs sem hefur grandskoða fólk, samskipti þess og tjáningu með svipbrigðum, og saumað út í striga.

Gerð var óformleg og óvísindaleg könnun og nemendur beðnir að nefna þær þrjár tegundir líðanar sem þeir finni oftast fyrir. Miðað við niðurstöður unnu nemendur með eftirfarandi líðan í verkefninu: gleði, kvíði, pirringur, reiði, stress, spenna, þreyta, sorg. Eftir kynninguna á listakonunni og hennar verkum drógu nemendur miða með líðan sem þau áttu að birta á striganum.

Í framhaldi af vinnunni tóku kennarar umræðu með nemendum um virði hverrar líðanar og hvað þurfi að gera til að bæta hana og hverju þurfi að fórna.

Þakkir:

Sara Vilbergs, Brynja Emilsdóttir textílkennari, Hjörný Snorradóttir myndmenntakennari og Sigrún Erna Sigurðardóttir myndlistakona, kennaranemi úr list og verkgreinanáminu á menntavísindasviði HÍ.

Samstarfsaðilar:

LÁN – listrænt ákall til náttúrunnar

Plast og brot úr framtíð

Nemendur Landakotsskóla unnu listaverk innblásin af sýningu Þorgerðar Ólafsdóttur, Brot úr framtíð, sem sýnd var í Þjóðminjasafninu 2024. Verkefnið unnu þau með kennaranemum frá Háskóla Íslands í samstarfi við LÁN (listrænt ákall til náttúrunnar).  Líkt og Þorgerður gerði í sinni sýningu þá veltu nemendur fyrir sér fyrirbærum sem tengjast áhrifum mannsins á náttúruna.

Á sýningunni eru sýnd plastskrímsli, furðufuglar og vangaveltur um áhrif plastmengunar á hrafna.

Efniviðurinn er plastrusl sem nemendur komu með frá eigin heimilum. Plastrusl-vandamálið var rætt frá ólíkum hliðum og nemendur veltu fyrir sér hvað við getum gert til að draga úr ofnotkun einnota plasts.

Á meðan á sýningunni stendur gefst gestum tækifæri til að vinna myndrænt og bæta við sýninguna.

Þakkir:

LÁN (listrænt ákall til náttúrunnar)

Vatnaskrímslin

Nemendur í 5. bekk Vesturbæjarskóla hafa undanfarna mánuði unnið að stóru og spennandi þemaverkefni um Ísland. Upp á síðkastið hafa þau einbeitt sér að íslenskum ám og vötnum og skoðað hvernig þau tengjast þjóðsögum og þjóðtrú landsins. Nýverið heimsóttu þau Þjóðminjasafnið, þar sem þau leituðu uppi þær dularfullu kynjaverur sem leynast á safninu.

Nemendur hafa lesið drauga- og skrímslasögur, kynnst ólíkum furðuverum og leyft ímyndunaraflinu að ráða för. Í kjölfarið bjuggu þau til sín eigin vatnaskrímsli – og útkoman er bæði mögnuð og ógnvekjandi!

Hér má sjá fjölbreyttar kynjaverur – allt frá gríðarstórum og skelfilegum vatnaskrímslum til töfrandi vatnadísa sem heilla fólk upp úr skónum með dáleiðandi augum og dularfullu yfirbragði. En verið á verði – hver veit nema eitt þeirra teygi sig upp úr djúpinu og dragi saklausa vegfarendur ofan í myrkur vatnsins...

Sýningin er unnin í samstarfi við LÁN,listrænt ákall til náttúrunnar.

Aðgangur ókeypis
Opið alla daga frá kl. 10-17

Hlökkum til að sjá þig

Fyrirlesturinn:

Youtube-rás safnsins

Dagskrá

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlista Þjóðminjasafnsins.

Þegar þú skráir þig á póstlista Þjóðminjasafnsins færðu boð á sýningaropnanir, fréttir af viðburðum og sýningum og tilboð í Safnbúð.

Takk!  Staðfestu skráninguna með því að smella á linkinn sem við vorum að senda þér.
Eitthvað fór úrskeiðis. Reyndu aftur.