HönnunarMars: Ristur - Íslenskar þjóðsögur

Á sýningunni Ristur gefur að líta prentverk eftir Eystein Þórðarson, sem byggð eru á íslenskum þjóðsögum.
Eysteinn verður á fyrstu hæð Þjóðminjasafnsins, fimmtudaginn 3. apríl, kl. 11-13 og mun segja gestum og gangandi frá hinni fornu aðferð við tréristur. Um er að ræða eina elstu aðferðina sem þekkt er við prentun á lituðum myndlýsingum, margir kannast t.a.m. við japanskar tréristur.
Hvert verk er búið til með því að tálga út tréplötur fyrir ólíka hluta myndarinnar og prenta hvern lit á eftir öðrum. Því eru margar tréplötur unnar til þess að mynda í lokin eitt prentverk. Aðferðin er algerlega laus við tölvur en einungis eru tré, handverkfæri, málning og pappír notuð í ferlinu.

Verkefnið heldur á lofti íslenskum ævintýrum á tímum sífellt meiri áhrifa frá erlendum miðlum og er ætlað að varpa ljósi á sagnaarf Íslendinga með nýstárlegum myndlýsingum. Eysteinn Þórðarson myndskreytir og hönnuður stendur að baki verkefninu en það hlaut styrk hjá Hönnunarsjóði síðastliðið haust.
Sýningin er á dagskrá HönnunarMars. Hún stendur frá 3. - 13. apríl og er opin alla daga frá kl. 10 - 17.