Bæjarhátíð á Menningarnótt 2025

Þjóðminjasafnið býður til kaupstaðarferðar á Menningarnótt - Komdu í kaupstað!
Allsherjar bæjarhátíð verður slegið upp fyrir framan Þjóðminjasafnið á Menningarnótt laugardaginn 23. ágúst, með dagskrá milli kl. 13 og 16:30. Þá verður kaupstaðalífið á 19. öld í brennidepli.
Gísli Einarsson, ritstjóri Landans, kynnir dagskrá hátíðarinnar.
Á dagskrá verður kynning á íslenska hestinum og mikilvægi hans í íslensku þjóðlífi, glímukennsla, þjóðdansar og leiðsagnir um safnið. Þá gefast gestum tækifæri til að læra að sitja hest í söðli og klyfja hann varningi, gæða sér á grautarlummum og fræðast um lífið á 19. öld. Í lok dagskrár mun Einar Falur, ljósmyndari, bjóða upp á leiðsögn um sýningu sína Samtal við Sigfús.
Jafnframt verður aðgangur að safninu ókeypis og kaffihúsið opið að vanda.
Dagskrá
13:00-13:10 Gísli Einarsson setur hátíðina
13:10-13:45 Leiðsögn: 19. öldin og lifandi tónlist
14:00-14:30 Gísli Einarsson: Íslenski hesturinn - þarfasti þjónninn
14:30-15:00 Íslensk glíma
15:00-15:30 Þjóðdansar
15:30-16:30 Leiðsögn: Einar Falur um Samtal við Sigfús
Ath. Komi til slagveðurs verður dagskráin færð inn í húsakynni safnsins, þá nema hestarnir.
Í samstarfi við Árnastofnun verður hægt að póstleggja bréf sem búin eru til í vinnustofu í Eddu, húsi íslenskunnar, Arngrímsgötu 5. Kaupa þarf frímerki í safnabúð Þjóðminjasafnsins.
Viðburðurinn er í samstarfi við Sögusetur íslenska hestsins.
Áhugaverðir punktar um 19. öldina
19. öldin var tími breytinga og tækiþróunar. Þá tóku Íslendingar stefnu á að mynda sérstakt þjóðríki og vegferðin í átt að sjálfstæði hófst. Fjölbreytni í atvinnulífi jókst samfara útgerð þilskipa. Verslun margfaldaðist og vísir að borgarastétt varð til.
Íslendingar skiptu fremur oft um bústaði og fluttust meira á milli héraða en alþýða margra annarra þjóða. M.a. þess vegna komu aldrei upp verulegar mállýskur í tungumálinu. Á ferðalaginu höfðu Íslendingar aðallega hesta sem reiðskjóta og reiddu á þeim varning, en víða var margra daga ferð í verslunarstað. Þar sem hestar voru að jafnaði klyfjaðir varningi, þá kom ekki hjólið og þar með kerran, til landsins fyrr en seint á 19. öld.
Glíman á sér rætur að rekja til víkinganna, en nýr áhugi vaknaði á 19. öld. Þá voru glímuaðferðir formfestar og reglur skráðar. Þótt hún hafi tekið breytingum, hafa meginatriðin haldist: jafnvægi, fótaburður og drengskapur.
Elstu heimildir um dans á Norðurlöndunum má finna í íslenskum bókmenntum. Æðstu yfirvöld voru mótfallin dansi á mannamótum þar sem hann þótti ýta undir misjafna framkomu og leiða af sér óskilgetin börn. Skipulögð söfnun á þjóðdönsunum hófst á 20. öld, en þeir skiptast í sagnadansa og söngleiki. Sagnadansar eiga sér undirflokka eins og hringdansa, stígdansa og hringbrot.


