Meðganga og barneignir í 60 ár

Á Alþjóðadegi ljósmæðra mánudaginn 5. maí nk. býður Þjóðminjasafn Íslands í samstarfi við Ljósmæðrafélag Íslands, Félag þjóðfræðinga á Íslandi og Námsbraut í þjóðfræði við Háskóla Íslands til málþings um meðgöngur, fæðingar og þjóðfræði því tengt.
Málþingið er haldið í tilefni þess að þjóðháttasafn Þjóðminjasafnsins safnar nú upplýsingum hjá almenningi um meðgöngu, fæðingar og fyrstu mánuði barnsins. Sambærileg spurningaskrá var send út frá safninu árið 1963, en ljóst er að hefðir og verklag tengt meðgöngu og barneignum hafa breyst á undanförnum 60 árum.
Á málþinginu munu þjóðfræðingar og ljósmæður leiða saman hesta sína í fjölbreyttum erindum um efni þessu tengt, og þannig hjálpa nýrri spurningaskrá Þjóðháttasafnsins að líta dagsins ljós.
Málþingið hefst kl. 13:00 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og er öllum opið.

Fyrirlesturinn:
Youtube-rás safnsinsDagskrá
13:00 Setning málþings
13:10 62 ára meðganga: Ný spurningaskrá lítur dagsins ljós
Helga Vollertsen sérfræðingur þjóðháttasafns
13:30 Ljósmæður hjá álfum, mikilvægi sagnaarfsins
Eva Þórdís Ebenezersdóttir þjóðfræðingur
13:50 „Vei þér móðir“: Töfrapils sem getnaðarvarnir í íslenskum þjóðsögum
Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur
14:20 Biðjum þá dísir að duga: Fæðingarhjálp heiðinna vætta
Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur og þjóðfræðingur
14:50 Ljósmæður og skemmri skírn
Berglind Ragnarsdóttir þjóðfræðingur
15:20 Fæðingarsögur: Þekkingarbrunnur ljósmóðurfræða og listar
Ólöf Ásta Ólafsdóttir, prófessor emeríta við hjúkrunar-og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands
15:50 Spurningaskrá kemur í heiminn! Formleg opnun nýrrar spurningaskrár.
16:00 Kaffi og kleinur
Fundarstjórn verður í höndum ljósmóður, sem hjálpar þannig nýrri spurningaskrá í heiminn
Aðgangur á málþingið er ókeypis