Bóka- og heimildasafn

Bóka- og heimildasafn

1.12.2015

Í Þjóðminjasafninu er rekið sérhæft bóka- og heimildasafn sem leggur áherslu á varðveislu og miðlun efnis sem tengist rannsóknarsviðum stofnunarinnar. Helstu efnissvið eru norræn menningarsaga, fornleifafræði, þjóðháttafræði, textílfræði, safnafræði, forvarsla, byggingarlist og listiðnaður.

Bókakostur safnsins er um tuttugu þúsund bindi þar af um 300 tímaritatitlar. Auk þess á safnið stórt smáprentasafn, skýrslur, handbækur og geisladiska. Þetta er stærsta sérfræðisafn landsins á sviði forvörslu, safnafræði, textílfræði og fornleifafræði.

Safnið hefur fulla aðild að GEGNI, og er stærstur hluti þess skráður þar.

Heimildasafnið samanstendur af margvíslegum gögnum sem teljast til safnkosts Þjóðminjasafnsins eða eru heimildir um gripi, minjar og rannsóknir sem safnið varðveitir eða hefur staðið að og snertir alla munaflokka Þjóðminjasafnsins.

Á Bóka- og heimildasafninu er veitt aðstoð við leitir í Sarpi, rafrænum skráningar- og gagnagrunni Þjóðminjasafnsins. Bóka- og heimildasafnið er meðlimur í Arlis/Norden - samtökum listbókasafna á Norðurlöndum.

Safnið er öllum opið og annast afgreiðslu heimilda og veitir aðra almenna upplýsinga- og bókasafnsþjónustu. Bækur og gögn eru einungis lánuð á lesstofu, en útlán bóka eru að jafnaði takmörkuð við starfsfólk stofnunarinnar. Safnið er opið almenningi alla virka daga frá kl. 13-16. Einnig er opið fyrir háskólanema frá kl. 9-12 alla virka daga. Prýðileg lesaðstaða er á safninu.

Bóka- og upplýsingafræðingur safnsins er Gróa Finnsdóttir, groa@thjodminjasafn.is . Sími: 530-2247. 

Safnið er til húsa í skrifstofuhúsakynnum  Þjóðminjasafnsins í Setbergi, 2. hæð,  Suðurgötu 43, gegnt safnhúsinu sem hýsir sýningar safnsins.