Lög og reglugerðir

Lög um Þjóðminjasafn Íslands

Samkvæmt lögum er Þjóðminjasafn Íslands höfuðsafn á sviði menningarminja. Það annast söfnun, skrásetningu, varðveislu og rannsóknir á minjum um menningarsögu þjóðarinnar og kynningu þeirra, innanlands og utan. Þjóðminjasafn Íslands er byggðasöfnum og öðrum minjasöfnum til ráðgjafar og stuðlar að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu á sviði þjóðminjavörslunnar.

Hlutverk Þjóðminjasafns Íslands og byggðasafna er að safna, skrásetja, varðveita, forverja og rannsaka minjar, svo sem forngripi, kirkjugripi, listmuni, nytjahluti, svo og myndir, hljóðritanir og skráðar heimildir um þjóðhætti og kynna þær almenningi, innanlands og utan. Til slíkra minja geta einnig talist hús sem hafa sérstakt gildi að mati þjóðminjavarðar. Hverju byggðasafni ber að leggja áherslu á söfnun og sýningu muna sem telja má einkennandi eða sem hafa sögulegt gildi fyrir hlutaðeigandi byggðarlag eða landsfjórðung.

Þjóðminjasafn Íslands skal stuðla að rannsóknum á minjum um menningarsögu Íslendinga og útgáfu fræðilegra rita um þær. Í Þjóðminjasafni Íslands skulu varðveittir aflagðir kirkjugripir og þeir gripir sem Fornleifavernd ríkisins og forráðamenn kirkna eru sammála um að eigi sé ástæða til að hafa í kirkju lengur. Þó getur þjóðminjavörður í samráði við Fornleifavernd ríkisins falið viðkomandi byggðasafni varðveislu gripanna. Grunnsýning Þjóðminjasafnsins sýnir menningarsögu þjóðarinnar frá landnámi til vorra daga og þar eru sýndir allir merkustu gripir safnsins. Í safnhúsinu eru einnig tveir stórir sérsýningasalir, nokkur minni sérsýningarými, fyrirlestrasalur, kennslustofa, kaffihús og safnbúð.

Lög um Þjóðminjasafn Íslands, nr. 140/2011

Lög um menningarminjar 

Safnalög 

Reglugerð um Þjóðminjasafn Íslands