Þjóð verður til. Menning og samfélag í 1200 ár
Á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins er leitast við að draga upp skýra og heillega mynd af menningarsögu Íslendinga. Gripir safnsins eru settir í sögulegt samhengi þar sem tekið er mið af tiltækum rannsóknum. Ýmsum aðferðum í sýningargerð er beitt til að miðla til gesta fjölbreyttum menningararfi þjóðarinnar.
Uppbygging sýningarinnar
Íslandssagan er rakin í tímaröð frá landnámi til nútímans. Sögunni er skipt nokkuð jafnt upp í sjö tímabil og með því móti er m.a. varpað ljósi á þau tímaskeið sem í hefðbundinni sögutúlkun hafa gjarnan fallið í skuggann af þeim sem talin hafa verið merkilegri og frásagnarverðari.
Hvert tímabil er auðkennt með sérstökum skáp, sem sýnir lykilgrip og gefur örstutt yfirlit um helstu einkenni þess. Fyrir hvert tímabil eru valdir atburðir eða merkar nýjungar sem markað hafa spor í þjóðarsöguna en einnig er bent á þá þætti sem lítið breyttust um aldir. Saman mynda þessir atburðir sögu hvers tímabils sem sýnd er með gripum. Hér má lesa nánar um hvert tímabil.
Gestum er boðið upp á fleiri möguleika en hefðbundna til að njóta sýningarinnar. Hægt er að hlusta á raddir fyrri alda í hljóðstöðvum og gagnvirkt margmiðlunarefni á snertiskjáum opnar leiðir að auknum skilningi og dýpri. Í herbergi sem er helgað svokallaðri skemmtimenntun má snerta muni og klæðast búningum og í minningarstofu eru gestir leiddir inn í stofu sem er útbúin eins og tíðkaðist á ýmsum heimilum árin 1955–1965.
Grunnsýningin er hugsuð sem ferðalag í gegnum í gegnum tíðina sem hefst í knerri landnámsfólks sem kemur siglandi yfir opið haf til nýrra heimkynna og lýkur svo í flughöfn nútímans– núverandi gátt Íslendinga að heiman og heim.
Hægt er að bóka leiðsögn um sýninguna fyrir hópa með því að senda tölvupóst á bokun@thjodminjasafn.is.