Fjölskyldan

Komdu í heimsókn með alla fjölskylduna

Eitt af markmiðum Þjóðminjasafnsins er að safnkosturinn sé gestum til fróðleiks, skemmtunar og örvunar. Heimsókn í Þjóðminjasafnið er því bæði skemmtileg og fræðandi fyrir alla fjölskylduna. Hægt er að ganga að vandaðri fræðslu um íslenskar þjóðminjar frá landnámi til nútímans, hvort sem hún fæst gegnum sígilda leiðsögn frá starfsmönnum safngæslu, hljóðleiðsögn, sérfræðileiðsögn eða með öðrum hætti. Einnig er hægt að fara í gegnum safnið með hjálp tilbúinna leiðsagna sem fást í afgreiðslu. 

Aðgangur er ókeypis fyrir börn og ungmenni 17 ára og yngri, bæði á Þjóðminjasafnið við Suðurgötu og í Safnahúsið við Hverfisgötu. 

Barnaleiðsögn

Reglulega yfir vetrartímann er boðið upp á sérstaka barnaleiðsögn í Þjóðminjasafninu á Suðurgötu og Safnahúsinu við Hverfisgötu. 

Á grunnsýningu safnsins á Suðurgötu gengur safnkennari með gesti um sýningar og segir frá áhugaverðum og skemmtilegum gripum. Meðal þess sem er skoðað er 800 ára gamall skór, dularfullur álfapottur, gömul hurð með fallegum myndum (Valþjófsstaðahurðin), beinagrindur, galdramunir og margt fleira. Stundum er brotið út af vananum og sérsýningar safnsins skoðaðar eða ákveðin þemu.

Stofan

Í Þjóðminjasafninu á Suðurgötu er í undirbúningi fræðslu-, rannsókna- og fjölskyldustofa á 3. hæð. Markmið með stofunni er að fræðast, eiga skemmtilega samverustund, hvíla sig og uppgötva eitthvað spennandi. Hún er hugsuð fyrir skólahópa og almenna gesti. Í stofunni verða skápar með gripamergð; mörgum hlutum sömu tegundar, bæði úr torfbæjum og jarðfundnir gripir. Uppsetningin mun minna á opnar geymslur.   Stofan verður opnuð 2019.

Ratleikir í Þjóðminjasafninu við Suðurgötu

Ratleikir Þjóðminjasafnsins eru góð leið til að kynnast grunnsýningu safnsins á léttan og líflegan hátt. Ratleikirnir henta allri fjölskyldunni og er sérstaklega gaman að leysa þrautirnar saman.  Börn á safniHægt er að nálgast ratleikina í móttöku Þjóðminjasafnsins á Suðurgötu. Umfjöllunarefni þeirra eru margbreytileg:

  • Þrautaleikur um Þjóðminjasafn
  • Mældu, teldu, teiknaðu!
  • Furður úr fortíð
  • Börnin í gamla daga
  • Á þeysireið um Þjóðminjasafn

Einnig er í boði ratleikur á sex erlendum tungumálum; á ensku, frönsku, spænsku, dönsku, þýsku og pólsku. Í desember er boðið upp á sérstakan jólakattarratleik, en þá býðst gestum að leita uppi jólaköttinn sem hefur falið sig víðsvegar um safnið.

Fjölskyldan í Safnahúsinu við Hverfisgötu

Fræðsluefni Safnahússins miðar að því að leikur og sköpun séu grunnur náms. Fræðsla er samofin sýningunni Sjónarhorn á margvíslegan hátt og á sýningunni er fræðsluefni sem býður upp á leik og hvetur til skapandi hugsunar um verk og inntak sýningarinnar. Auk þess eru fræðslurými í Safnahúsinu þar sem sýningagestir geta skoðað, leikið og slakað á. Heimsókn í Safnahúsið er tilvalið tækifæri til samverustundar eldri og yngri kynslóða og fræðsluefnið er hugsað sem samvinnuverkefni fyrir börn og fullorðna.

FróðildiS_fraedsla-a4

Fróðildi er vængjuð vera sem merkir staðina þar sem börn og fjölskyldur geta leyst þrautir saman, handfjatlað eitthvað, skoðað nánar, leikið sér eða slakað á og haft það notalegt. Þegar þú sérð Fróðildi inni í Safnahúsinu veistu að þú mátt snerta, prófa og leika!


Best er að fylgjast með safninu á samfélagsmiðlum eða skrá sig á póstlista til að fá fréttir um dagskrána hverju sinni.Sérstakt fræðslurými og skemmtilegt fræðsluefni eru aðgengileg fyrir alla aldurshópa í Safnahúsinu við Hverfisgötu, fjölskyldum að kostnaðarlausu. 

Verið öll velkomin.