Á eigin vegum

Á eigin vegum

16.4.2020

Leiðbeinendum skóla- og frístundahópa er velkomið að skipuleggja heimsókn á eigin vegum í Þjóðminjasafn Íslands.

Hópar á eigin vegum koma á tímabilinu kl. 10 – 17, þegar sýningar standa opnar. Við komu á safnið gefa leiðbeinendur sig fram í móttöku. Fulltrúi sýningagæslu kynnir hópnum safnareglur og sýningar og aðstoðar leiðbeinendur við að koma hópnum af stað. Heimsókn skóla- og frístundahópa á eigin vegum er ókeypis.

Ratleikir eru góð leið til að kynnast grunnsýningu safnsins á léttan og líflegan hátt. 

Þeir henta börnum í fylgd fullorðinna og sérstaklega gaman er að leysa þrautirnar saman. Það má fá blýanta lánaða í móttökunni. Ratleikina er hægt að nálgast í veggstandi í anddyri safnsins. Umfjöllunarefni þeirra eru þrenns konar:

  • Leitin að rúnaristunum. Nýtt!
  • Þrautaleikur um Þjóðminjasafn, mældu, teldu, teiknaðu!
  • Uppáhalds safngripurinn minn
  • Á þeysireið um Þjóðminjasafnið

Ratleikir eru til á sex erlendum tungumálum (ensku, þýsku, pólsku, spænsku, dönsku og frönsku).

Stofa er rými fyrir börn, fjölskyldur, skólahópa og alla forvitna gesti. Hún breytist eftir þörfum úr setustofu í rannsóknarstofu eða kennslustofu.

Í skápum og skúffum Stofunnar er úrval forngripa úr fórum safnsins. Gripirnir vekja margar spurningar. Til hvers voru þeir notaðir? Hvað tengir þá eða aðgreinir? Er vitað hver átti þá? Má lesa útlitslega þróun gripanna með samanburði? Hægt er að nota snjallsíma til að fræðast um gripina.

Innst í rýminu er bæjarhóll. Hóllinn er setbekkur sem breytist eftir þörfum í knörr landnámsfólksins, baðstofu torfbæjarins eða útsýnispall yfir fortíð og framtíð. Þar má láta vel um sig fara, finna lesefni við hæfi, leika sér og spila.

Leiðbeinendur hópa á eigin vegum í Þjóðminjasafninu geta nýtt sér leiðsagnarhandrit:

Leiðsögn fyrir leiðbeinendur yngri hópa á eigin vegum (pdf)

Leiðsögn fyrir leiðbeinendur eldri hópa á eigin vegum (pdf)

Hópar á eigin vegum eru velkomnir á sýningar í Myndasal og Bogasal Þjóðminjasafnsins og er leiðbeinendum bent á að nýta fræðsluefni með sýningunum.

Í þessum sölum eru breytilegar sýningar með ýmsum nýstárlegum nálgunum á íslenska menningarsögu. Sjá yfirlit um yfirstandandi sýningar hér.

Leiðbeinendur athugið

Heimsókn í Þjóðminjasafn Íslands er dýrmæt reynsla og til þess að heimsóknin heppnist sem best er vert að hafa eftirfarandi í huga:

  • Ágætt er að halda hópinn og að hver leiðbeinandi sé ekki með fleiri en átta börn.
  • Að fenginni reynslu má áætla að um 30-40 mínútur séu hæfilegur tími fyrir heimsókn hópsins.
  • Allir gripir á sýningum Þjóðminjasafnsins eru ekta og því má ekki koma við þá. Af tillitssemi við aðra gesti og út frá öryggi sýningargripa leyfum við ekki hlaup í sýningarsölum.

  • Börnin eru á ábyrgð leiðbeinenda sinna inni í sýningunum. Myndatökur eru leyfðar en slökkva þarf á blossaljósinu/flassinu á myndavélinni.

Bókanir

Vinsamlega bókið heimsókn hóps á eigin vegum fyrir fram. Best er að senda tölvupóst með a. m. k. tveggja daga fyrirvara á netfangið kennsla@thjodminjasafn.is.
Eftirfarandi upplýsingar þurfa að fylgja: Nafn skóla eða stofnunar, nafn leiðbeinanda og símanúmer, fjöldi nemenda og leiðbeinenda, dagsetning og tímasetning og sérþarfir nemenda, ef einhverjar eru.