Á eigin vegum

Á eigin vegum

4.5.2016

Leiðbeinendum skóla- og frístundahópa er velkomið að skipuleggja heimsókn á eigin vegum í Þjóðminjasafnið á Suðurgötu eða í Safnahúsið við Hverfisgötu.

Hópar á eigin vegum koma á tímabilinu kl. 10 – 17, þegar sýningar standa opnar. Við komu á safnið gefa leiðbeinendur sig fram í móttöku. Fulltrúi sýningagæslu kynnir hópnum safnareglur og sýningar og aðstoðar leiðbeinendur við að koma hópnum af stað.

Safnahúsið við Hverfisgötu:

Hópar á eigin vegum á sýningunni Sjónarhornum í Safnahúsinu eru hvattir til leita uppi fræðslurými þar sem má snerta, prófa og leika. Yfirlit um staðsetningu þessara rýma má nálgast í móttöku Safnahússins. Yfir þessum rýmum vakir vera sem kallast Fróðildi. (Sjá mynd). Auk fræðslurýma Fróðildanna er leikur samofinn sýningunni Sjónarhornum á margvíslegan hátt. Fræðsluefnið býður upp á leik og hvetur til skapandi hugsunar um verk og inntak sýningarinnar. Heimsókn í Safnahúsið er tilvalið tækifæri til samverustundar eldri og yngri kynslóða og fræðsluefnið er hugsað sem samvinnuverkefni fyrir börn og fullorðna.

Þjóðminjasafnið á Suðurgötu:

Ratleikir standa hópum á eigin vegum í Þjóðminjasafninu til boða. Ratleikir eru góð leið til að kynnast grunnsýningu safnsins á léttan og líflegan hátt. Þeir henta börnum í fylgd fullorðinna og sérstaklega gaman er að leysa þrautirnar saman. Það má fá blýanta lánaða í móttökunni. Ratleikina er hægt að nálgast í veggstandi í anddyri safnsins. Umfjöllunarefni þeirra eru margbreytileg:
  • Þrautaleikur um Þjóðminjasafn
  • Mældu, teldu, teiknaðu!
  • Furður úr fortíð
  • Börnin í gamla daga
  • Á þeysireið um Þjóðminjasafnið

Ratleikir eru til á sex erlendum tungumálum (ensku, þýsku, pólsku, spænsku, dönsku og frönsku).

Leiðbeinendur hópa á eigin vegum í Þjóðminjasafninu geta nýtt sér eftirfarandi leiðsagnarhandrit:

Leiðsögn fyrir leiðbeinendur yngri hópa á eigin vegum (pdf)

Leiðsögn fyrir leiðbeinendur eldri hópa á eigin vegum (pdf)

Hópar á eigin vegum eru velkomnir á sýningar í Myndasal og Bogasal Þjóðminjasafnsins og er leiðbeinendum bent á að nýta fræðsluefni með sýningunum. Í þessum sölum eru breytilegar sýningar með ýmsum nýstárlegum nálgunum á íslenska menningarsögu. Sjá yfirlit um yfirstandandi sýningar hér: http://www.thjodminjasafn.is/syningar-vidburdir/sersyningar/syningar-i-gangi/

Leiðbeinendur athugið

Heimsókn í Þjóðminjasafn Íslands og Safnahúsið er dýrmæt reynsla og til þess að heimsóknin heppnist sem best er vert að hafa eftirfarandi í huga:

  • Mikilvægt er að halda hópinn og að hver leiðbeinandi sé ekki með fleiri en átta börn.
  • Að fenginni reynslu mætti ætla að um 30-40 mínútur væri hæfilegur tími fyrir heimsókn hópsins.
  • Brýnið fyrir börnunum að ekki megi snerta sýningargripina og ekki megi hlaupa eða vera með háreysti.
  • Börnin eru á ábyrgð leiðbeinenda sinna inniá sýningunum. Myndatökur eru leyfðar en slökkva þarf á blossaljósinu/flassinu á myndavélinni.

Bókanir

Vinsamlega bókið heimsókn hóps á eigin vegum fyrir fram. Best er að senda tölvupóst með a. m. k. tveggja daga fyrirvara.
Þjóðminjasafnið á Suðurgötu: kennsla@thjodminjasafn.is
Safnahúsið við Hverfisgötu: bokun.safnahusid@thjodminjasafn.is
Eftirfarandi upplýsingar þurfa að fylgja: Nafn skóla eða stofnunar, nafn leiðbeinanda og símanúmer, fjöldi nemenda og leiðbeinenda, dagsetning og tímasetning og sérþarfir nemenda, ef einhverjar eru.