Varðveisla mynda

Handbók um varðveislu á ljósmyndum og filmuefni

8.12.2015

Handbókin er hugsuð sem uppflettirit um varðveislu mynda og ætluð starfsfólki á söfnum. Orðið myndir nær yfir allar tegundir af ljósmyndum, allt frá Daguerretýpum til stafrænna ljósmynda okkar tíma, svo sem pappírsmyndir, skyggnur og filmur, svarthvítar jafnt sem litmyndir, lausar, innrammaðar eða í albúmum. Eins er fjallað um kvikmyndir og varðveislu þeirra, hvort sem um er að ræða myndir á filmum, myndböndum eða mynddiskum.

Endingartími mynda ræðst af þrennu: Varðveisluaðstæðum, meðhöndlun og sjálfu efninu ogstöðugleika þess. Handbókin beinir sjónum okkar að því hvernig megi forgangsraða einstökum varðveisluaðferðum og nýta þá tækni og þau efni sem stuðla að því að líftími myndasafna verði sem lengstur.

Í handbókinni er í upphafi fjallað um mismunandi gerðir mynda og farið yfir efnislega eiginleika og endingu mynda af mismunandi gerðum. Mismunandi efniseiginleikar krefjast sérstakra varðveisluaðstæðna og er það rakið. Loks er fjallað um dæmigerðar skemmdir, ástæður þeirra, hversu brýnar lagfæringar eru og hvernig að þeim skuli skuli staðið. Þar á eftir er kafli um varðveisluaðstæður þar sem útskýrt er hvaða áhrif mismunandi aðstæður hafa á endingartíma mynda. Greint er frá frá helstu orsakaþáttum, s.s. hitastigi, rakastigi, birtu og loftgæðum. Síðan er sagt frá þeim áhrifum sem geymslur og umbúðir hafa almennt.

Í ráðleggingunum, sem fylgja hverjum undirkafla, eru leiðbeiningar um hvernig bæta má varðveisluskilyrðin. Í kaflanum um meðhöndlun er skýrt út hvernig meðhöndla skal myndir með ábyrgum hætti. Einnig er farið yfir ýmsar aðrar ráðleggingar um meðhöndlun, m.a. hvernig fara skal með ljósmyndir þegar þær eru skannaðar og ljósritaðar.

Bókinni lýkur með tillögum að forgangsröðun þar sem lagt er til hvernig standa skuli að varðveisluáætlun og byggist hún á þremur meginköflum handbókarinnar.

Loks er að finna lista yfir þá söluaðila sem selja áhöld og efni sem uppfylla kröfur safna um varðveislueiginleika, auk heimildaskrár yfir rit sem hafa að geyma frekari upplýsingar.

Handbók um varðveislu ljósmynda