Skráning

Skráning

3.6.2016

Í Þjóðminjasafni Íslands er safnkosturinn skráður í Sarp, menningarsögulegt gagnasafn, sem Þjóðminjasafn Íslands stendur að ásamt öðrum söfnum á Íslandi. Jafnframt er unnið að skráningu frumheimilda í geymslum safnsins.

Skráning aðfanga er einn af helstu hornsteinum í góðu safnastarfi og því fór vel á að upphafsmenn safnsins voru iðnir við að skrá og lýsa munum í safninu frá upphafi og hefur sú verkhefð haldist þrátt fyrir mikla aukningu safnkostsins. Lengi framan af var eingöngu fært í svokallaða aðfangabók þar sem hverjum hlut var lýst og greint frá gefanda og komudagsetningu. Þegar á leið var farið að skrá aðföngin í spjaldaskrá til að fá betri yfirsýn og var þeirri skrá síðar komið á rafrænt form í ýmsum kerfum og forritum í árdaga tölvualdar.
Upp úr 1990 hófust umbætur á hinu rafræna skráningarumhverfi með það í huga að samhæfa þau atriði sem sameiginleg eru hinum ýmsu munaflokkum innan safnsins. Í ljós kom að samræming var vel gerleg, einkum vegna þess að rafræn skráning var stutt á veg komin. Safnið stóð fyrir því að þróað var skráningarkerfi sem fékk nafnið Sarpur þar sem öll aðföng safnsins eru skráð. Flest minjasöfn landsins tóku þetta kerfi upp um og upp úr árinu 2000 auk nokkurra sérsafna.

Sarpur

Gagnasafn Sarps samanstendur einkum af upplýsingum um muni, myndir, fornleifar, hús, myndlist, hönnun, þjóðhætti og örnefni. Söfn og stofnanir sem aðild eiga að Sarpi eru núna um 50 talsins. Rekstrarfélag Sarps hefur aðsetur hjá Landskerfi bókasafna sem jafnframt annast þjónustu við notendur og þróun gagnagrunnsins (sjá https://www.landskerfi.is/rekstrarfelag-sarps/felagid). Ytri vefur Sarps er opinn almenningi á internetinu en auk þess veitir Bóka- og heimildasafn Þjóðminjasafnsins nánari upplýsingar varðandi notkun hans. Skráningarstjóri Þjóðminjasafns er Þorvaldur Böðvarsson, sími: 530-2282 thorvaldur@thjodminjasafn.is . Skoða má gagnasafn Þjóðminjasafnsins á www.sarpur.is