Ljósmyndasafn Íslands

Ljósmyndasafn Íslands

8.12.2015

Hlutverk Ljósmyndasafns Íslands er að safna, skrá og varðveita ljósmyndir, glerplötur, filmur, skyggnur og önnur gögn er tengjast ljósmyndum. Ljósmyndir eru stærsti efnisflokkurinn í Þjóðminjasafni Íslands og eru um sjö milljónir mynda í safninu, bæði úrval þjóðlífs- og mannamynda frá upphafi ljósmyndunar árið 1839 og fram yfir aldamótin 2000 og einnig besta varðveitta úrval teiknaðra og málaðra manna- og þjóðlífsmynda frá Íslandi frá 16.-19. öld. 

Safnið tekur við og varðveitir efni frá stofnunum og einkaaðilum sé þess óskað.

Viltu afhenda Þjóðminjasafninu myndir?
Vinsamlegast sendið tölvupóst á netfangið ljosmyndasafn@thjodminjasafn.is með upplýsingum, s.s. um aldur, nafn ljósmyndara og magn mynda sem þú hefur áhuga á að afhenda Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu. Í kjölfarið mun sérfræðingur í ljósmyndasafni hafa samband við þig.

Ljósmyndasafn Þjóðminjasafnsins Íslands
Veitir almenningi, sérfræðingum, útgefendum, kvikmyndagerðarmönnum og öðrum aðgang að myndasöfnum í sinni vörslu og selur og leigir eftirtökur eftir myndum sem varðveittar eru í safninu. Um ein milljón mynda eru leitarbærar í skráningarkerfinu www.sarpur.is. Hluti þeirra, eða rúmlega 150 þúsund myndanna, er aðgengilegur almenningi til skoðunar þar. Annað er ekki til á stafrænu formi eða bara á frummyndum og veita starfsmenn safnsins aðstoð við leit að öðru myndefni.

Myndir í ljósmyndasafninu eru flokkaðar niður í nokkrar einingar eftir uppruna og gerð. Fimm undirsöfn eru í safninu. Í mannamyndasafninu eru rúmlega 55 þúsund ljósmyndir, en byrjað var að safna mannamyndum árið 1908 og markar það upphaf ljósmyndasöfnunar hér á landi. Í ljós- og prentmyndasafninu eru um 37 þúsund myndir, en söfnun þeirra hófst árið 1915. Póstkortasöfn eru þrjú og eru kortin samtals um 14 þúsund. Filmu- og plötusöfn eru 253 frá atvinnuljósmyndurum, ljósmyndastofum og áhugamönnum og barst það fyrsta til safnsins árið 1915. Filmu- og plötusöfnin eru mjög misstór, sum með innan við tíu myndir, önnur með um milljón myndir, en alls eru um fjórar milljónir mynda í þeim öllum. Myndasöfn eru alls 75 og má þar meðal annars nefna ljósmyndasafn Morgunblaðsins, Sambands íslenskra samvinnufélaga og Ríkisútvarpsins.

Netfang Ljósmyndasafnsins er ljosmyndasafn@thjodminjasafn.is

Skrifstofa Ljósmyndasafnsins er í Vesturvör 16-20 í Kópavogi, þar sem safneignin er jafnframt varðveitt. Tekið er á móti gestum samkvæmt tímapöntunum. Hægt er að bóka heimsókn fyrirfram hjá viðeigandi sérfræðingi hér.

Vinsamlega athugið að engar ljósmyndir eru til sýnis í Vesturvör. Sýningar safnsins eru á Suðurgötu 41 í Reykjavík og upplýsingar um safnkost er að finna á Sarpi. 

Samstarfsverkefni með Borgarsögusafninu í Varsjá 

Verkefni Þjóðminjasafnsins í samstarfinu eru af ýmsum toga. Meðal þeirra er skrásetning og stafvæðing Ljósmyndsafnsins á árinu 2023. Verkefnið er unnið með styrk frá Uppbyggingarsjóði EES/EEA Grant.