Munasafn

Munasafn

Hlutverk munasafnsins er að safna, varðveita og kynna íslenskan menningararf í víðum skilningi. Söfnun hófst við stofnun safnsins árið 1863 og hefur haldið áfram síðan en með mismunandi áherslum á hverjum tíma. 

Gripir í safninu eru um 120.000 talsins af margvíslegu tagi. Það eru: Jarðfundnir munir. Listgripir úr kirkjum s.s altaristöflur, líkneski, altarisbúnaður, höklar. Búnaður daglegs lífs heimilisáhöld, rúmábreiður, margs konar fatnaður, húsbúnaður og húsgögn. Útskornir gripir, rúmfjalir, kistlar, drykkjarhorn og silfurgripir. Þá eru ótaldir stærri gripir s.s. tækniminjar, vélar, bílar, dráttarvélar, skip og bátar.

Í samræmi við lög eru jarðfundnir gripir eign íslenska ríksins og sú skylda hvílir á safninu að varðveita slíka gripi  við kjöraðstæður. Viðamiklar fornleifarannsóknir síðustu ára hafa stóraukið þann hluta munasafnins og skapað auknar kröfur til húsakynna og tryggrar varðveislu. Á næstu misserum verður lögð áhersla á að veita viðtöku fjölda gripa og miklu magni rannsóknargagna úr fornleifarannsóknum í samræmi við lög um menningarminjar.

Frá árinu 1960 hefur safnast mikið af skriflegum gögnum um andleg og veraldleg efni gegnum spurningalista sem heimildamenn hafa svarað og góðfúslega sent til safnsins. Í þjóðháttasafninu er efniviður til rannsókna á lífi og starfi Íslendinga í gegnum tíðina og í seinni tíð hefur verið safnað efni um ýmsa þætti daglegs lífs í samtímanum.

Upplýsingar um safnkostinn eru aðgengilegar í Sarpi, menningarsögulegum gagnagrunni íslenskra safna. Hið sama gildir um svör heimildamanna við spurningalistum þjóðháttasafns.

Sérfræðingar munasafns hafa sérþekkingu á menningarsögu þjóðarinnar, gripafræði, forvörslu, sýningagerð, fornleifafræði og þjóðháttafræði. Þeir veita almenningi, fræðimönnum og nemendum margvíslega þjónustu þegar eftir er leitað. Sé þörf á þjónustu og aðgengi að gripum og heimildum vegna rannsókna leitar viðkomandi eftir henni í samræmi við gildandi reglur.  Sýningar Þjóðminjasafns endurspegla varðveislu- og rannsóknastarf  safnsins. Sérsýningar veita  almenningi innsýn í rannsóknir sem fara fram innan safnsins og varpa ljósi á menningu og líf í samtímanum. Verkefnastjóri sýninga í Munasafni hefur umsjón með viðhaldi og endurnýjun á grunnsýningum safnsins og sérsýningum.

Aðsetur munasafns er Varðveislu- og rannsóknamiðstöð á Tjarnarvöllum 11 í Hafnarfrði og er skrifstofa þess opin alla virka daga frá kl. 8:00-16:00.