Munasafn
Hlutverk Munasafns er að safna, varðveita og kynna íslenskan menningararf í víðum skilningi. Söfnun hófst við stofnun Forngripasafnsins árið 1863 og hefur haldið áfram síðan en með mismunandi áherslum á hverjum tíma.
Heildarfjöldi muna er nú um þrjú hundruð þúsund. Gripirnir eru af margvíslegu tagi: Listgripir úr kirkjum, þar á meðal altaristöflur, líkneski, altarisbúnaður og höklar, munir sem tilheyra daglegu lífi fyrr á tíð, áhöld, rúmábreiður, margs konar fatnaður, húsbúnaður og húsgögn, útskornir gripir, rúmfjalir, kistlar, drykkjarhorn og silfurgripir svo nokkuð sé nefnt. Þá eru í safnkostinum tækniminjar, vélar, bílar og bátar. Loks ber að geta alls kyns jarðfundna muni úr fornleifauppgröftum, sem skipta tugum þúsunda. Hægt er að fletta skráðum munum upp í Munasafni Sarps en þar er stór hluti Munasafns skráður.
Í samræmi við lög eru jarðfundnir gripir eign íslenska ríksins og sú skylda hvílir á safninu að varðveita slíka gripi við kjöraðstæður. Viðamiklar fornleifarannsóknir síðustu ára hafa stóraukið þann hluta munasafnins og skapað auknar kröfur til húsakynna og öruggrar varðveislu. Á næstu misserum verður lögð áhersla á að veita viðtöku fjölda gripa og miklu magni rannsóknargagna úr fornleifarannsóknum í samræmi við lög um menningarminjar.
Sérfræðingar Munasafns hafa sérþekkingu á menningarsögu þjóðarinnar, gripafræði, forvörslu, sýningagerð, fornleifafræði og þjóðháttafræði. Þeir veita almenningi, fræðimönnum og nemendum margvíslega þjónustu þegar eftir er leitað. Sé þörf á þjónustu og aðgengi að gripum og heimildum vegna rannsókna leitar viðkomandi eftir henni í samræmi við gildandi reglur. Sýningar Þjóðminjasafns endurspegla varðveislu- og rannsóknastarf safnsins. Sérsýningar veita almenningi innsýn í rannsóknir sem fara fram innan safnsins og varpa ljósi á menningu og líf í samtímanum. Verkefnastjóri sýninga í Munasafni hefur umsjón með viðhaldi og endurnýjun á grunnsýningum safnsins og sérsýningum.
Munasafns Þjóðminjasafnsins er til húsa í varðveislu- og rannsóknamiðstöð safnsins á Tjarnarvöllum 11 í Hafnarfirði.
Tekið er á móti gestum samkvæmt tímapöntunum milli kl. 8:00 og 16:00. Hægt er að bóka heimsókn fyrirfram hjá viðeigandi sérfræðingi hér.
Vinsamlega athugið að engir munir eru til sýnis á Tjarnarvöllum. Sýningar safnsins eru á Suðurgötu 41 í Reykjavík.