Á eigin vegum

Á eigin vegum

Leiðbeinendum skóla- og frístundahópa er velkomið að skipuleggja eigin heimsókn í Þjóðminjasafnið án þess að fá leiðsögn frá safninu. Hópar geta bókað tíma á almennum opnunartíma safnsins og boðið er upp á stutta kynningu á safninu og sýningunum í anddyri áður en safnið er skoðað sé þess óskað. Heimsókn hóps á eigin vegum skal bóka fyrirfram og taka fram ef óskað er eftir kynningu.

Til þess að gera heimsóknina hnitmiðaðari mælum við með að leiðbeinendur undirbúi sig með því að heimsækja safnið eða nýti sér það fræðsluefni sem safnið býður upp á, þar á meðal leiðsagnir fyrir leiðbeinendur hópa á eigin vegum.

Leiðsögn fyrir leiðbeinendur yngri hópa á eigin vegum (pdf)

Leiðsögn fyrir leiðbeinendur eldri hópa á eigin vegum (pdf)

Ekki má gleyma fræðslu með sérsýningunum sem bjóða upp á nýstárlegar nálganir við íslenska menningarsögu. Fræðsluefni er útbúið fyrir flestar stórar sérsýningar.

Leiðbeinendur athugið

Heimsókn í Þjóðminjasafn Íslands er dýrmæt reynsla og er það ósk okkar að heimsóknin megi verða þér og hópnum þínum sem eftirminnilegust. Til þess að heimsóknin heppnist sem best er vert að hafa eftirfarandi í huga:

  • Mikilvægt er að halda hópinn og að hver leiðbeinandi sé ekki með fleiri en átta börn á sínum snærum.
  • Að fenginni reynslu mætti ætla að um 30-40 mínútur væri hæfilegur tími fyrir heimsókn barnahóps.
  • Brýnið fyrir börnunum að ekki megi snerta sýningargripina og ekki megi hlaupa eða vera með háreysti.
  • Börnin eru í Þjóðminjasafninu á ábyrgð leiðbeinanda sinna.

Bókanir

Til að tilkynna heimsókn á eigin vegum er best að senda tölvupóst með dags fyrirvara á póstfangið kennsla@thjodminjasafn.is. Eftirfarandi upplýsingar þurfa að fylgja: Nafn skóla eða stofnunar, nafn leiðbeinanda og símanúmer, fjöldi nemenda, áætluð dagsetning og tími og sérþarfir nemenda ef einhverjar eru.