Hlutverk og stefna

Hlutverk og stefna

Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslunnar. Það annast söfnun, skrásetningu, varðveislu og rannsóknir á minjum um menningarsögu þjóðarinnar og kynningu þeirra, innan lands og utan. Þjóðminjasafn Íslands er byggðasöfnum og öðrum minjasöfnum til ráðgjafar og stuðlar að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu á sviði þjóðminjavörslunnar.

Hlutverk Þjóðminjasafns Íslands

Hlutverk Þjóðminjasafnsins er margþætt enda er því lögum samkvæmt ætlað að vera miðstöð þjóðminjavörslu. Þjóðminjasafninu er einnig ætlað að stunda rannsóknir á menningarsögulegum minjum jafnframt því að miðla þekkingu á menningararfi þjóðarinnar. Á vegum safnsins starfa því sérfræðingar í fjölmörgum greinum, s.s. forvörslu, fornleifafræði, byggingarsögu, þjóðháttafræði, sagnfræði, listfræði og fleiri greinum. Minjavarslan felst í því að safna, varðveita, rannsaka og miðla þekkingu á þjóðararfinum í víðum skilningi, enda spanna minjar í vörslu safnsins allt frá þjóðháttum, húsbúnaði, fatnaði, listgripum, kirkjugripum, verkfærum og atvinnuminjum, til húsasafnsins sjálfs sem telur 43 hús vítt og breitt um landið. 

Mikið er leitað til safnsins með hvers kyns fyrirspurnir og heimsóknir skólabarna hafa verið fastur liður í starfi safnsins um áratuga skeið. Háskólanemar í safnfræði, sagnfræði, listasögu, þjóðfræði og fornleifafræði finna sér einnig verkefni innan safnsins, einkum í tengslum við lifnaðarhætti á fyrri tíð. Þá hefur heimsókn gömlu íslensku jólasveinanna síðustu 13 daga fyrir jól orðið einkar vinsæl meðal yngstu safngesta.

Til byggðasafna teljast önnur söfn en Þjóðminjasafn Íslands sem sett hafa verið á stofn í þeim tilgangi sem lýst er í 5 gr. þjóðminjalaga,  hlotið hafa viðurkenningu þjóðminjavarðar og uppfylla skilyrði um rekstrarstyrki safna samkvæmt safnalögum. Hlutverk Þjóðminjasafns Íslands og byggðasafna er að safna, skrásetja, varðveita, forverja og rannsaka minjar, svo sem forngripi, kirkjugripi, listmuni, nytjahluti, svo og myndir, hljóðritanir og skráðar heimildir um þjóðhætti og kynna þær almenningi, innan lands og utan. Til slíkra minja geta einnig talist hús sem hafa sérstakt gildi að mati þjóðminjavarðar. Hverju byggðasafni ber að leggja áherslu á söfnun og sýningu muna sem telja má einkennandi eða sem hafa sögulegt gildi fyrir hlutaðeigandi byggðarlag eða landsfjórðung.

Þjóðminjasafn Íslands skal stuðla að rannsóknum á minjum um menningarsögu Íslendinga og útgáfu fræðilegra rita um þær. Í Þjóðminjasafni Íslands skulu varðveittir aflagðir kirkjugripir og þeir gripir sem Fornleifavernd ríkisins og forráðamenn kirkna eru sammála um að eigi sé ástæða til að hafa í kirkju lengur. Þó getur þjóðminjavörður í samráði við Fornleifavernd ríkisins falið viðkomandi byggðasafni varðveislu gripanna. Grunnsýning Þjóðminjasafnsins sýnir menningarsögu þjóðarinnar frá landnámi til vorra daga og þar eru sýndir allir merkustu gripir safnsins. Í safnhúsinu eru einnig tveir stórir sérsýningasalir, nokkur minni sérsýningarými, fyrirlestrasalur, kennslustofa, kaffistofa og safnbúð.

Safnastefna á sviði þjóðminjavörslu 2003-2008 (pdf)

Safnastefna á sviði þjóðminjavörslu 2010-2014 (pdf)