Ljósmyndasafn Íslands

Ljósmyndasafn Íslands

8.12.2015

Hlutverk Ljósmyndasafns Íslands er að safna, skrá og varðveita ljósmyndir, glerplötur, filmur, skyggnur og önnur gögn er tengjast ljósmyndum. Ljósmyndir eru stærsti efnisflokkurinn í Þjóðminjasafni Íslands og eru um 5 milljónir mynda, bæði úrval þjóðlífs- og mannamynda frá upphafi ljósmyndunar 1839 og fram yfir aldamótin 2000 en líka besta varðveitta úrval teiknaðra og málaðra manna- og þjóðlífsmynda frá Íslandi frá 16.-19. öld. 

Safnið tekur við og varðveitir efni frá stofnunum og einkaðilum sé þess óskað.

Ljósmyndasafn Íslands veitir almenningi, sérfræðingum, útgefendum, kvikmyndagerðarmönnum og öðrum aðgang að myndasöfnum í sinni vörslu og selur og leigir eftirtökur eftir myndum sem varðveittar eru í safninu. Hluti myndanna er aðgengilegur almenningi til skoðunar  í Sarpi. Annar hluti er ekki til á stafrænu formi eða bara á frummyndum og veita starfsmenn safnsins aðstoð við leit að öðru myndefni.

Myndir í ljósmyndasafninu eru flokkaðar niður í nokkrar einingar eftir uppruna og gerð. Fimm undirsöfn eru í safninu. Mannamyndasafnið inniheldur rúmlega 50 þúsund ljósmyndir, en byrjað var að safna til þess árið 1908 og markar það upphaf ljósmyndasöfnunar hér á landi. Ljós- og prentmyndasafnið inniheldur um 30 þúsund myndir, en byrjað var að safna til þess árið 1915. Póstkortasöfn eru þrjú í safninu og innihalda um 14 þúsund kort. Filmu- og plötusöfn eru 199 í safninu bæði frá atvinnuljósmyndurum, ljósmyndastofum og áhugamönnum og barst það fyrsta til safnsins árið 1915. Filmu- og plötusöfnin eru mjög misstór sum með innan við 10 myndir en önnur með um milljón myndir en alls eru um fjórar milljónir mynda í þeim öllum. Myndasöfn eru alls 36 í safninu eins og til dæmis safn Morgunblaðsins, Sambands íslenskra samvinnufélaga og Ríkisútvarpsins-Sjónvarps en um 180 þúsund myndir eru í þeim öllum.

Ljósmyndasafn Íslands er með aðsetur í Vesturvör 16-20 í Kópavogi og er skrifstofa þess opin alla virka daga frá kl. 8:00 - 16:00