Fyrirlestrar

Rannsókn á kumlateigi á Dysnesi við Eyjafjörð

Þriðjudaginn 6. nóvember kl. 12 flytur dr. Hildur Gestsdóttir fornleifræðingur erindi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. 

Sumarið 2017 fór fram rannsókn á Dysnesi í landi Syðri-Bakka í vestanverðum Eyjafirði á vegum Fornleifastofnunar Íslands. Ástæðan var að fyrirhugaðar voru framkvæmdir á svæðinu. Ekki voru neinar heimildir um fornleifar á nesinu, en örnefnið „Dysnes“ gaf til kynna að þar hafi verið dysjar. Við rannsóknina kom svo í ljós stór kumlateigur, með a.m.k. sex kumlum; fjórum stórum haugum og tveimur bátkumlum. Nær teigurinn yfir u.þ.b. 300-350 fermetra svæði, en gæti hafa verið stærri, þar sem talsvert landbrot er með ströndinni, og voru þrjú kumlanna að hluta rofin af sjó. Í kumlunum fundust bein karla og kvenna og með fólkinu var lagt veglegt og fjölbreytt haugfé sem gerðfræðilega fellur að 10. aldar formgerðum.

Dysnes er um margt óvenjulegur minjastaður. Algengast er að íslensk kuml séu fremur lítið áberandi, en á Dysnesi eru nokkrir stórir haugar. Auk þess eru þar tvö bátkuml, en slík kuml eru einnig fágæt hér á landi. Loks hafa óvenju mörg vopn fundist í þessum gröfum og silfurgripir, sér í lagi fingurbaugar, sem eru fágætir. Þá ber grafreiturinn einnig skýr ummerki um að grafið hafi verið ofan í og í kringum haugana í öndverðu og þeim raskað í tilgangi sem okkur er hulinn, jafnvel oftar en einu sinni. Náttúran hefur farið hörðum höndum um minjarnar, kumlin næst fjörunni eru talsvert skemmd og skert af sjávargangi.

Í fyrirlestrinum verða helstu niðurstöður úr rannsókninni kynntar og verða sérfræðingar sem komu að úrvinnslunni á staðnum. Í Þjóðminjasafni eru um þessar mundir sýndir gripir úr fornleifarannsókn Fornleifastofnunar Íslands á Dysnesi við Eyjafjörð.

Verið öll velkomin.

Hví voru íslenskar fornsögur ekki skrifaðar á latínu?

Þriðjudaginn 9. október kl. 12 flytur Árni Björnsson þjóðháttafræðingur erindi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. 

Lesa meira

Hádegisfyrirlestrar Þjóðminjasafns Íslands

Fyrirlestrar Þjóðminjasafns Íslands tengjast sýningum, rannsóknum eða öðru starfi safnsins og eru annan hvern þriðjudag klukkan 12 í fyrirlestrasalnum við Suðurgötu.

Lesa meira

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins

Fyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins eru annan hvern þriðjudag klukkan 12:05 í fyrirlestrasalnum við Suðurgötu. Fyrirlestrarnir eru haldnir í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.

Lesa meira
Félag fornleifafræðinga

Hádegisfyrirlestrar Félags fornleifafræðinga

Nýjar rannsóknir í íslenskri fornleifafræði. Hádegisfyrirlestrar á miðvikudögum kl. 12 í sal Þjóðminjasafnsins. Fyrirlestraröð Félags fornleifafræðinga,  námsbrautar í fornleifafræði við Háskóla  Íslands og  Þjóðminjasafns Íslands.

Lesa meira

Hádegisfyrirlestrar RIKK

Hádegisfyrirlestrar RIKK í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, kl. 12.00-13.00.

Lesa meira