Fjölskyldan

Komdu í heimsókn með alla fjölskylduna

17.5.2016

Eitt af höfuðmarkmiðum Þjóðminjasafnsins er að safnkosturinn sé gestum til fróðleiks, skemmtunar og örvunar á áhuga fólks á fortíðinni. Heimsókn í Þjóðminjasafnið er skemmtileg og fræðandi fyrir alla fjölskylduna. Hægt er að ganga að vandaðri fræðslu um íslenskar þjóðminjar frá landnámi til nútímans, hvort sem hún er veitt með sígildri leiðsögn frá starfsmönnum safngæslu, hljóðleiðsögn, leiðsögn sérfræðinga eða með öðrum hætti. Einnig er hægt að fara um safnið með aðstoð tilbúinna leiðsagna sem nálgast má í afgreiðslu.

Aðgangur er ókeypis fyrir börn og ungmenni yngri en 18 ára.

Stofa

Stofa er rými í Þjóðminjasafni Íslands fyrir börn, fjölskyldur, skólahópa og alla gesti. Stofunni er breytt eftir þörfum úr setustofu í rannsóknarstofu eða þá kennslustofu.

Stofa

Í sýningarskápum Stofunnar er úrval safngripa. Þeir eru frá mismunandi tímum og vekja gjarnan upp margar spurningar. Til hvers voru gripirnir notaðir? Hvað tengir þá eða aðgreinir? Er vitað hver átti þá? Hægt er að skanna QR-kóða með snjallsíma til að fræðast nánar um einstaka gripi.

Innst í rýminu er bæjarhóll. Hóllinn er setbekkur sem breytist eftir þörfum í knörr landnámsfólks, baðstofu í torfbæ eða útsýnispall yfir fortíð og framtíð. Þar er hægt að láta fara vel um sig, finna lesefni við hæfi, leika sér og lita.

Leiðsögn og smiðja fyrir börn

Frá september og fram í maí er fyrsta sunnudag hvers mánaðar boðið upp á sérstaka dagskrá fyrir börn í Þjóðminjasafninu við Suðurgötu.

Barnaleiðsögn

Á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins gengur safnkennari með gesti um sýningar og segir frá áhugaverðum og skemmtilegum gripum. Veturinn 2022 - 2023 fær gömul hurð með fallegum myndum, Valþjófsstaðahurðin, sviðsljósið í þessum leiðsögnum. Eftir kynninguna gefst kostur á að vinna út frá efninu í skapandi smiðjum.

Stundum er brugðið út af vananum og sérsýningar safnsins skoðaðar eða ákveðin þemu dregin fram.

Ratleikir í Þjóðminjasafninu

Ratleikir eru góð leið til að kynnast grunnsýningu safnsins á líflegan hátt. Leikirnir henta allri fjölskyldunni og er sérstaklega gaman fyrir foreldra og börn að leysa þrautirnar saman. Hægt er að nálgast ratleikina í móttöku Þjóðminjasafnsins og eru viðfangsefnin margbreytileg.

Nú eru komnir nýir ratleikir sem nefnast Leitin að rúnaristunum og Safnabingó.

Þá er í boði ratleikur á sex erlendum tungumálum: Ensku, frönsku, spænsku, dönsku, þýsku og pólsku.

Í desember er boðið upp á sérstakan ratleik, en þá gefst gestum kostur á að leita uppi jólaköttinn sem hefur falið sig víðs vegar um safnið innan um safngripina.

Til að fá fréttir um dagskrána á safninu hverju sinni er best að fylgjast með á viðburðasíðu safnsins , samfélagsmiðlum eða skrá sig á póstlista þess.

Verið öll velkomin.