Saga safnsins

Saga safnsins

Frá 19. öld til nútímans

21.9.2015

Þjóðminjasafnið telst stofnað 24. febrúar 1863. Þann dag færði Jón Árnason stiftsbókavörður stiftsyfirvöldum bréf frá Helga Sigurðssyni á Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi þar sem hann býðst til að gefa Íslandi 15 gripi með þeirri ósk "að þeir verði fyrsti vísir til safns íslenskra fornmenja.” Íslenskir gripir höfðu fram að þessu einkum verið varðveittir í dönskum söfnum. Þórður Jónasson stiftamtmaður og Helgi Thordersen biskup þáðu gjöfina skriflega samdægurs. Þeir fólu Jóni Árnasyni umsjón safnsins en hálfu ári seinna fékk hann að ráða Sigurð Guðmundsson málara sem annan umsjónarmann, en Sigurður hafði fyrstur sett fram hugmynd um stofnun safns af þessum toga.

Safnið var oftast nefnt Forngripasafnið fram til 1911 að það hlaut lögformlega það nafn sem enn gildir. Það var fyrstu áratugina til húsa á ýmsum háaloftum í Reykjavík, í Dómkirkjunni, Tugthúsinu við Skólavörðustíg, Alþingishúsinu og í húsi Landsbanka Íslands við Austurstræti, uns það fékk inni í risi Landsbókasafnsins við Hverfisgötu (nú Safnahúsið) 1908 og var þar í fulla fjóra áratugi. Við stofnun lýðveldis 1944 ákvað Alþingi að reisa safninu eigið hús og var flutt í það um 1950.

Á eftir þeim Jóni Árnasyni og Sigurði Guðmundssyni voru forstöðumenn safnsins þeir Sigurður Vigfússon gullsmiður, Pálmi Pálsson menntaskólakennari og Jón Jakobsson bókavörður. Árið 1907 voru fyrst sett lög um verndun fornminja og hömlur við að þær væru fluttar úr landi. Á sama tíma var Matthías Þórðarson skipaður þjóðminjavörður og gegndi því starfi í fjóra áratugi. Árið 1947 tók Kristján Eldjárn við embætti þjóðminjavarðar og gegndi því uns hann var kjörinn forseti Íslands árið 1968. Eftirmaður hans var Þór Magnússon sem gegndi starfinu í 32 ár, að undanskildum tveimur árum þegar Guðmundur Magnússon sagnfræðingur gegndi starfinu. Árið 2000 tók Margrét Hallgrímsdóttir við embætti þjóðminjavarðar.

Fyrstu níu áratugina var einkum leitast við að safna jarðfundnum forngripum, kirkjugripum og öðrum listgripum frá síðari öldum. Hálfri öld eftir að frumgripirnir 15 komu til varðveislu voru safnfærslurnar orðnar yfir sex þúsund. Safninu voru einnig ánöfnuð nokkur sérsöfn sem tengdust ákveðnu fólki, svo sem Jóni Sigurðssyni forseta og Ingibjörgu Einarsdóttur, Tryggva Gunnarssyni bankastjóra, Jóni Vídalín konsúl og Helgu konu hans, hjónunum Þóru og Þorvaldi Thoroddsen prófessor, Williard Fiske prófessor og Andrési Johnsen hárskera og forngripasafnara í Ásbúð í Hafnarfirði. Eitt sérsafn Þjóðminjasafnsins, Ásbúðarsafn, geymir til að mynda um 20 þúsund muni.

Í tilefni Alþingishátíðarinnar 1930 afhentu dönsk yfirvöld um 200 íslenska dýrgripi úr dönskum söfnum og fjöldi íslenskra listgripa barst einnig frá Noregi.

Fjöldi gripa í munasafni er um þrjú hundruð þúsund og þeir eru af margvíslegu tagi. Þar má nefna ýmis konar muni úr daglegu lífi fólks, svo sem áhöld og verkfæri, fatnað, skart, rúmábreiður, húsbúnað, ljósfæri og rúmfjalir, kistla, drykkjarhorn og fleiri útskorna gripi. Þá eru varðveittir ýmsir kirkjugripir, eins og altaristöflur, líkneski, prédikunarstólar, höklar, altarisklæði og útdeilingaráhöld. Í safnkostinum eru jafnframt margvíslegar tækniminjar, vélar, bílar og bátar, svo fátt eitt sé nefnt. Stór hluti safnkostsins eru gripir sem fundist hafa í jörðu og, lögum samkvæmt, ber að varðveita í Þjóðminjasafni Íslands.

Hlutverk Ljósmyndasafns Íslands er að safna, skrá og varðveita ljósmyndir, glerplötur, filmur, skyggnur og önnur gögn er tengjast ljósmyndum. Ljósmyndir eru stærsti efnisflokkurinn í Þjóðminjasafni Íslands og eru um sjö milljónir mynda í safninu, bæði úrval þjóðlífs- og mannamynda frá upphafi ljósmyndunar árið 1839 og fram yfir aldamótin 2000. Þá er á Ljósmyndasafninu best varðveitta úrval teiknaðra og málaðra manna- og þjóðlífsmynda frá Íslandi frá 16.-19. öld.

Almennum nytjahlutum, sem ekki voru jafnframt listgripir, var ekki byrjað að safna fyrr en eftir 1950, enda hafði húsrými verið takmarkað. Fjöldi ýmissa verkfæra og búsáhalda hefur stórvaxið í safninu á síðari áratugum og upp úr 1970 var hafist handa við að safna tækniminjum.

Þjóðminjasafnið opnað á ný

Árið 1998 var ráðist í gagngerar viðgerðir og breytingar á safnhúsinu við Suðurgötu. Allir gripir voru fluttir í vandaðar geymslur, en starfsfólk fékk aðstöðu á tveimur stöðum, í Kópavogi og Garðabæ. Á meðan framkvæmdir við safnhúsið stóðu yfir var öll önnur starfsemi Þjóðminjasafnsins í fullum gangi og átti safnið hlut að ýmsum sérsýningum hérlendis sem erlendis.

Nýuppgert Þjóðminjasafn við Suðurgötu með nýjum grunnsýningum og sérsýningum var opnað á ný þann 1. september 2004.

Í framhaldi af opnuninni var safnið tilnefnt til þátttöku í samkeppni Evrópuráðs safna (European Museum Forum, EMF) um safn Evrópu árið 2006 (European Museum of the Year 2006). Til greina í þá keppni koma söfn sem lokið hafa umfangsmiklum breytingum eða endurskipulagningu á einhverjum þætti starfseminnar eða ný söfn. Skilyrði er að ekki séu liðin meira en tvö ár frá endurnýjun eða stofnun þeirra safna sem verðlaun eða viðurkenningu hljóta. Þjóðminjasafn Íslands var eitt þriggja safna sem hlutu sérstaka viðurkenningu í samkeppninni 2006 (Special Commendation 2006).

Árið 2006 hlaut Þjóðminjasafnið einnig viðurkenningu Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, fyrir gott aðgengi fyrir alla. Við endurnýjun safnsins var sérstök áhersla lögð á aðgengismál og var viðurkenningin staðfesting á því að vel hafi til tekist.

Árið 2013 var Safnahúsið við Hverfisgötu 15 sameinað Þjóðminjasafninu og er þjóðminjavörður forstöðumaður þess. Árið 2015 var opnuð í Safnahúsinu sýningin Sjónarhorn sem er samstarfsverkefni Þjóðminjasafnsins, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Þjóðskjalasafns Íslands.

Að fenginni tillögu Þjóðminjasafns Íslands og Listasafns Íslands til mennta- og menningarmálaráðuneytisins tók ráðherra ákvörðun um að verkefni Safnahússins við Hverfisgötu færðust til Listasafnsins frá og með 1. mars 2021.

Umsjónarmenn Forngripasafnsins:

Jón Árnason 1863-1882

Sigurður Guðmundsson 1863-1874

Sigurður Vigfússon 1878-1892

Pálmi Pálsson 1892-1896

Jón Jakobsson 1896-1907

Þjóðminjaverðir:

Matthías Þórðarson 1907-1947

Kristján Eldjárn 1947-1968

Þór Magnússon 1968-2000

Margrét Hallgrímsdóttir 2000-2022

Harpa Þórsdóttir 2022

Settir Þjóðminjaverðir:

Guðmundur Magnússon 1992-1994

Anna Guðný Ásgeirsdóttir og Anna Lísa Rúnarsdóttir 2014-2015

Þorbjörg Gunnarsdóttir 2022