Myndasöfn - Þorsteinn Jósepsson (1907-1967)

Um miðja 20. öld náði áhugaljósmyndun á Íslandi þeirri stöðu að verða jafnvíg atvinnuljósmyndun. Þetta birtist til dæmis í ljósmyndabókum sem gefnar voru út um 1940. Einn þeirra áhugaljósmyndara sem náði að gera sig gildandi var Þorsteinn Jósepsson. Hann varð einn þekktasti landslags- og ferðaljósmyndari landsins um miðja síðustu öld. Þá var blómatími landkynningabóka og Þorsteinn í algjörri forystu við birtingu ljósmynda í slíkum bókum. Þorsteinn sótti sér ekki formlega menntun sem ljósmyndari en var mjög fær áhugljósmyndari og vann lengst sem blaðamaður á Vísi. Hann hlaut margoft viðurkenningar fyrir myndir sínar á sýningum og var lofaður fyrir nálgun sína í ljósmyndun. Ljósmyndir Þorsteins urðu um tíma hálfgerð þjóðareign þar sem þær skreyttu forsíður blaða og tímarita eins og Fálkans, Vikunnar og Helgafells. Einhverjar myndir gaf hann líka út á póstkortum og jólakortum sem voru góð söluvara upp úr 1950. Hann var mikill ferðalangur, virkur félagsmaður Ferðafélags Íslands og ferðaðist um landið allt sem og utanlands. Hann vann markvisst að því að mynda sem víðast á Íslandi; náttúru, bæi, þorp og staði en einnig atvinnulíf og fólk með það í huga að miðla til samlanda sinna og útlendinga. Þannig var ljósmyndun hans mun víðfeðmari en eingöngu landslag og í dag eru það ekki síst heimildaríkar mannlífs- og þjóðlífsmyndir hans sem eru þjóðargersemi. Hann var mjög nálægur ljósmyndari þar sem athafnir fólks og störf voru í nærmynd. Þorsteinn var einnig rithöfundur og gaf út eigin bækur og rit. Hann skrifaði gagnrýni um ljósmyndasýningar og -bækur og tjáði sig í riti um eigin myndsköpun. Skrif hans um ljósmyndun eru mjög þakkarverð því slíkt var fágæti á Íslandi á þeim tímum. Grein Þorsteins í Helgafelli árið 1943 um lögmál ljósmyndunar og ljósmyndun sem miðil er þannig einstök. Myndasafn Þorsteins í Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni telur um 32.000 myndir og þar af eru um 2.000 litmyndir. Myndaalbúm Þorsteins eru varðveitt sem sérflokkur.