Myndasöfn - Vilborg Harðardóttir (1935 -2002)

Fjölmiðlakonan, kennarinn og alþingismaðurinn Vilborg Harðardóttir vann lengst sem blaðamaður og ljósmyndari hjá Þjóðviljanum, eða með hléum frá 1960 til 1981. Á þeim tíma höfðu ljósmyndarar ekki sérstaka stöðu í íslenskri blaðamannastétt og það féll sjálfkrafa í hlut blaðamanna að taka að sér myndatökur sérstaklega þó á fátækari blöðum með minni útbreiðslu. Vilborg lærði aldrei ljósmyndun en var með prófgráðu í tungumálum og kennslufræði við Hí og stundaði bókmenntanám Í Þýskalandi. Miðlun var hennar vettvangur og ljósmyndun var einn þeirra miðla sem hún nýtti sér. Ljósmyndun hennar var samfélagslegs eðlis en ekki hugsuð útfrá fagurfræði. Þar sem ljósmyndaiðkun hennar einskorðaðist að mestu við gagnasöfnum fyrir vinnslu frétta er ljósmyndasafn hennar eðlilega mjög ríkt af heimildum. Vilborg fór víða í sínu starfi og myndir hennar varpa ljósi á tíðarandann. Þar er að finna myndir af ólíkum störfum fólks, byggingum mannvirkja, tískusýningum og mótmælagöngum svo eitthvað sé nefnt. Hún notar mikið vítt sjónarhorn og leggur sig fram við að fanga sjálfan atburðinn. Nærmyndir af fólki eru sjaldgæfar en þar leynast þó áhugaverðar myndatökur af viðmælendum hennar í borg og sveit. Eitt af því sem gefur safni Vilborgar sérstöðu er hve víða af landinu myndir hennar eru. Myndasafn hennar ber vott um áhuga hennar á samfélagsmálum og hún er til dæmis óspör á filmuna þegar hún myndar Keflavíkurgöngu herstöðvaandstæðinga árið 1968. Þar rennur blaðamaðurinn og baráttukonan saman því hún var ákafur talsmaður framfaramála í þjóðfélaginu og þá allra helst fyrir réttindum kvenna og bættum kjörum barna. Hún var ein af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar og sat á þingi 1975-76 Myndasafn Vilborgar um 3.300 myndir var afhent Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni haustið 2013.