Bækur og rit
  • Silfursmíð

Íslenzk silfursmíð

  • 2013- Þór Magnússon

Þór Magnússon

Þjóðminjasafn Íslands hefur gefið út rit Þórs Magnússonar, fyrrverandi þjóðminjavarðar, Íslenzk silfursmíð. Þór hefur rannsakað íslenska silfursmíð um áratuga skeið og birtast rannsóknir hans nú á prenti í bókinni sem er í tveimur bindum. Ritstjóri er Bryndís Sverrisdóttir.

Þór hóf rannsókn sína á íslensku silfri fyrir alvöru fyrir rúmum þrjátíu árum. Ritið er heimild og fróðleikur um íslenska silfursmiði og verk þeirra, allt frá miðöldum og fram til tuttugustu aldar en henni fylgir gullsmiðatal, þar sem fjallað er um  gull- og silfursmiði fædda á Íslandi fram til ársins 1950.

Silfur-1-ThorÞá fór fram rannsókn á dönsku silfri í söfnum og kirkjum á Íslandi og kveikti hún áhuga Þórs á að kynna sér betur verk íslenskra silfursmiða og beindist áhugi hans einkum að stimplum þeirra. Í þjóðminjavarðartíð Þórs bættist stöðugt í sarpinn og frá því að hann hætti störfum árið 2000 hefur hann haldið ótrauður áfram við heimildasöfnunina. Árið 2007 var tekin ákvörðun um að gefa rannsóknina út á prenti, að frumkvæði Margrétar Hallgrímsdóttur þjóðminjavarðar.

Á starfsferli sínum hefur Þór skrifað fjölmargar greinar, m.a. í Árbók Hins íslenska fornleifafélags, dagblöð og tímarit. Árið 1996 gaf Þjóðminjasafnið út bók Þórs Silfur í Þjóðminjasafni, sem er undanfari bókarinnar Íslenzk silfursmíð sem nú kemur út.

Þór Magnússon er fæddur árið 1937. Hann hóf störf sem safnvörður við Þjóðminjasafn Íslands árið 1964, en árið 1968 tók hann við þjóðminjavarðarstöðunni af Kristjáni Eldjárn, er hann varð forseti Íslands, og gegndi henni í 30 ár.

Bókin er til sölu í Safnbúð Þjóðminjasafns Íslands og í vefverslun. Einnig er hægt að panta bókina í síma 530 2203 eða senda tölvupóst til: verslun@thjodminjasafn.is