Fréttir

Dagur framtíðarminja - Íslenski safnadagurinn í Þjóðminjasafninu

20.8.2013

Íslenski safnadagurinn verður haldinn sunnudaginn 7. júlí en ókeypis aðgangur er að Þjóðminjasafninu og auk þess boðið uppá leiðsögn á ensku, íslensku og pólsku. Þá munu ríflega 70 börn taka þátt í viðburðinum Dagur framtíðaminja.

Þjóðminjasafnið er 150 ára í ár og er afmælisárið helgað æskunni. Safnið hefur unnið verkefni um fornleifar framtíðarinnar með stórum hópi barna. Börnin fengu box á safninu sem þau áttu að setja í nokkra gripi að eigin vali ásamt hefti sem þau áttu að skrifa í og teikna og segja frá sjálfum sér og sínu lífi í nútíð og framtíð. Þau þurftu að hugsa fyrir því að gripirnir væru úr efni, sem stæðist vel tímans tönn og gætu geymst lengi í jörðu. Á safnadaginn koma þau með boxin á Þjóðminjasafnið og setja þau í kistu sem grafin verður niður á lóð safnsins og geymd þar í 25 ár. Árið 2038, á 175 ára afmæli Þjóðminjasafnsins verður „börnunum“ boðið að koma og vera viðstödd þegar kistan verður grafin upp aftur.

Dagskrá safnadagsins verður sem hér segir: Kl. 11: Leiðsögn á ensku Kl. 13: Leiðsögn á íslensku Kl. 14: Leiðsögn á pólsku

Kl. 14: Framtíðarminjar grafnar á lóð Þjóðminjasafns.