Fréttir

Jarðgerð/moltugerð lífræns úrgangs

Ný spurningaskrá frá þjóðháttasafni Þjóðminjasafns Íslands

16.2.2022

Fjöldi fólks hefur á undanförnum árum byrjað að umbreyta lífrænum úrgangi í næringarríkan jarðveg eða moltu með ýmsum aðferðum. Þjóðminjasafn Íslands í samstarfi við Háskóla Íslands sendir nú út spurningaskrá sem ber heitið Jarðgerð/moltugerðlífræns úrgangs.

Spurningaskránni er ætlað að safna upplýsingum um moltugerð eða jarðgerð lífræns úrgangs á Íslandi. Við leitum til þeirra sem eru að jarðgera lífrænan úrgang til að draga lærdóm af reynslu þeirra. Hvað fékk þig til að fara að jarðgera lífrænan úrgang, hvernig hefur það reynst þér og hvaða áhrif hefur það haft? Hvaða viðhorf liggja að baki? Hverjar eru helstu áskoranirnar?

Spurningaskráin er hluti af rannsóknarverkefninu „Samlífi manna og örvera í daglega lífinu“. Áhuginn á samlífi manna og örvera hefur vaxið hratt alla 21. öldina en verkefnið beinir sjónum að því hvernig þetta samlífi mótast í daglegum athöfnum fyrr og nú, með áherslu á jarðgerð og matargerð. Verkefnið leiðir saman vísindafólk af ólíkum sviðum til að rannsaka hvernig menningarlegt, líffræðilegt og félagslegt samhengi mótar lifandi “kúltúr”. Markmiðið er að móta nýtt sjónarhorn á samspil manneskja og örvera og vísa veginn í átt að sjálfbærari framtíð. Hér er hægt að svara spurningaskránni.

Þrír heppnir þátttakendur sem skila fullnægjandi svörum við spurningaskránni fyrir 30. apríl 2022 verða dregnir út og fá tvær Bokashi tunnur og örveruklíð frá Jarðgerðarfélaginu.