Fréttir

Ríkissjóður eykur eignarhluta ríkisins á Keldum

23.4.2021

Keldur á Rangárvöllum eru einstakur sögustaður og einn af merkustu minjastöðum á Íslands og má ætla að þar hafi orðið byggð stuttu eftir landnám. Á Keldum er varðveitt einstök heild bæjar- og útihúsa frá fyrri tíð og fornleifar elstu byggðar. Til þess að unnt verði að varðveita menningarminjar á Keldum við sem bestar aðstæður, gera þær aðgengilegar almenningi og gera staðinn aðgengilegan gestum, hefur Ríkisstjórn Íslands, að fengnum tillögum Þjóðminjasafns Íslands, ákveðið að auka við eignarhluta ríkisins á Keldum.

Með heimild í fjárlögum fyrir árið 2021 var 24. mars sl. gengið frá kaupum sem ná 130 ha lands og allra fornra bygginga og mannvirkja næst Keldnabænum og landbúnaðarbygginga frá síðari hluta 20. aldar. Kaupin tryggja lóðarréttindi, sjónlínur og verndarsvæði í næsta nágrenni bæjarins, þ.e. menningarlandslagið í heild með búsetuminjum, húsum og rústum húsa. 

Ávinningur minjavörslu í landinu og í raun þjóðarinnar allrar með kaupunum er ótvíræður, hið einstaka menningarlandslag er komið í opinbera eigu og unnt er að tryggja varðveislu eins merkasta sögustaðar þjóðarinnar og aðgengi innlendra sem erlendra gesta að Keldum.

Hefðbundinn búskapur á Keldum verður aflagður á þessu ári. Á næstu misserum er stefnt að því að gera við forn hús og mannvirki sem Þjóðminjasafn Íslands var að taka í sína umsjá og bæta og byggja upp aðstöðu til móttöku ferðamanna. Síðar á þessu ári verður bílastæði vestan við bæjarþyrpinguna stækkað og þar komið fyrir þjónustuhúsi með salernum. Sú framkvæmd er hluti Landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Keldnabærinn er opinn daglega kl. 10:00 og 17:00 frá 1. júní til 31. ágúst.

Bæjarhúsin eru af elstu varðveittu gerð torfhúsa, þar sem framhús beggja vegna bæjardyra snúa langhlið að hlaði. Þetta svipmót hefur haldist allt frá miðöldum og eru elstu hlutar bæjarins frá þeim tíma sem er einstakt á Íslandi. Auk bæjarhúsa og kirkju eru þar skemmur, smiðja, myllukofi, fjós, hesthús, fjárrétt, jarðgöng o.fl. sem saman mynda einstæða heild og gefa innsýn í búskaparhætti gamla bændasamfélagsins, byggingarhætti þess og menningu. Eins og almennt gerist um torfhús hefur bærinn oft verið endurhlaðinn í áföngum og fengu bæjarhúsin á sig núverandi mynd í kjölfar Suðurlandsskjálftanna 1896 og 1912. Keldnabærinn er reistur úr hraungrýti úr Hekluhraunum í næsta umhverfi bæjarins og rekaviði úr fjörum á Landeyjarsandi þar sem Keldur áttu ítök. Frá því um miðja 20. öld hefur bærinn verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands og tilheyrir safnkosti þess. Keldnabærinn er mikilvægur hlekkur í ómetanlegri keðju torfhúsa í húsasafni Þjóðminjasafns og markmið viðgerða að varðveita upprunalegt gildi hins einstaka bæjar í íslensku sem alþjóðlegu ljósi. Hvers kyns viðgerðir eru í samræmi við varðveislugildi minjanna.

Á minjastaðnum getur að líta mikla náttúrufegurð sem fellst m.a. í andstæðum gróins og örfoka lands; þar skiptast á gróið land með keldum, landgræðslusvæði, sandauðnir og hraun. Fjallasýn er mikil og blasir Hekla við í norðaustri, Þríhyrningur og Tindfjöll í suðaustri og Vatnsdalsfjall í suðri. Uppsprettur koma fram undan hrauninu og dregur bærinn nafn af þeim. Vatnið er 2-3 stiga heitt, jafnt sumar og vetur, og á sér vafalaust langan aðdraganda undir Hekluhraunum. Í svonefndum Tanga er lind sem nefnd er Maríubrunnur. Hún var vígð af Guðmundi biskupi góða Arasyni og helguð Maríu mey.

Getið er um Keldur í fornritum, einkum Njálu og Sturlungu, enda stendur bærinn í hjarta Njáluslóða og var á 12. og 13. öld eitt af höfuðbólum Oddverja. Á Keldum hefur staðið kirkja frá því að Jón Loftsson í Odda lét reisa þar kirkju á 12. öld og hann stofnaði þar klaustur. Keldur voru í eigu ættarinnar fram yfir 1400. Frá þeim tíma bjuggu ýmsir merkismenn á Keldum fram til 1780, m.a. lögréttumenn. Þar má nefna Eirík Þorsteinsson (f. um 1460) sem var fyrstur ættmenna sem bjuggu á Keldum á þriðja hundrað ára, og er elsta klukkan í Keldnakirkju frá hans tíma. Þriðja ættin hefur svo búið á Keldum síðan 1780 fram á þennan dag. Um miðja 19. öld var sandfok við að leggja jörðina í eyði en með einstökum mannvirkjum, sandvarnargörðum, tókst að hefta uppblásturinn og græða landið upp að nýju. Þeim ættmennum er einnig að þakka að gamli torfbærinn, elsta hús á Íslandi, er enn varðveittur. Enginn veit með vissu hversu gamall hann er en ártalið 1641 er markað á einum stað í honum. Elsti hluti hans, skálinn, er talinn vera frá miðöldum, en skálar af því tagi hurfu annars hér á landi um 1800. Fornleifarannsóknir árið 1998 sýndu að undir skálanum eru leifar upphaflega skálans sem er frá 12. öld ásamt jarðgöngunum, leynigöngum neðanjarðar sem liggja til suður frá bænum.

Varðveislugildi Keldna sem ómetanlegra menningarminja í einstöku umhverfi hefur lengi verið þekkt og árið 1938 var lögð fram á Alþingi þingsályktunartillaga, þar sem skyldi: hvar í aðalhéruðum landsins, þar sem samgöngur eru góðar, megi kaupa og endurbæta eða byggja sveitaheimili í fornum stíl er haldið sé uppi sem safni er sýni íslenska sveitamenning liðna tíma. Í framhaldi af þessu og athugun Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar festi ríkissjóður kaup á hluta bæjarhúsa á Keldum árið 1942. Þau hús voru loftbaðstofa, skálinn, hlóðaeldhús, tvær skemmur, smiðja, hjallur og jarðgöng. Einnig var gengið frá kaupum á fjósi og vesturhesthúsi austan við bæinn, tveimur lambhúsum sunnan við Keldnalæk og kornmylluhúsi vestan við bæjarhúsin. Árið 1964 var svo gengið frá kaupum á bæjarstétt framan við bæinn, tröðum austur til útihúsa og húsagarði að baki bæjarhúsa. Árið 1985 bætist við eignarhlutann íbúðarhús vestan við Keldnabæinn sem byggt var 1936. Þessi hús eru öll í umsjá Þjóðminjasafns Íslands. 

Ríkisstjórn Íslands samþykkti í ágúst 2007 nýja yfirlitsskrá yfir fyrirhugaðar tilnefningar Íslands á heimsminjaskrá UNESCO. Í flokknum menningarminjar er torfhúsaarfur Íslands á yfirlitsskrá heimsminjaskrár UNESCO ásamt tengdu búsetulandslagi og eru Keldur mikilvægur hluti þeirrar tilnefningar.

Ljósmynd: Lýður Skúlason