Eldri fyrirlestrar Þjóðminjasafns

Rannsókn á miðaldabæ í Vestribyggð á Grænlandi

  • 11.10.2016 Guðmundur Ólafsson

Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur og fræðimaður í Þjóðminjasafni, segir frá rannsókn á miðaldabæ í Vestribyggð á Grænlandi. Fyrirlesturinn er í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins þriðjudaginn 11. október klukkan 12. Ókeypis aðgangur og allir velkomnir.

Á árunum 1992-1996 rannsökuðu fornleifafræðingar bæjarrúst sem kom óvænt í ljós þegar nærliggjandi jökulá braut sér leið inn í hana. Rústin hafði grafist undir rúmlega meters þykkt sandlag og því varðveist ótrúlega vel í sífrera. Þegar sandlagið hafði verið fjarlægt og mannvistarlögin þiðnað fengu fornleifafræðingarnir einstakt tækifæri til þess að rannsaka grænlenskan miðaldabæ í Vestribyggð allt frá landnámi og þar til að bærinn var yfirgefinn.
Guðmundur Ólafsson sem tók þátt í rannsókninni af Íslands hálfu, mun í þessu erindi kynna niðurstöður rannsókna á þróun bæjarins sem hann hefur unnið að á undanförnum árum með dönskum samstarfsmönnum. Rannsóknin hefur ekki aðeins gildi fyrir sögu og þróun bæjarins undir sandinum því vegna hinna góðu varðveisluskilyrða getur hún jafnframt varpað alveg nýju ljósi á þróun torfbæjarins á Grænlandi sem og hér á Íslandi. 

https://www.youtube.com/watch?v=X_jJKMJCijs