Fjölskyldustund: Veistu hvað?

Það er margt merkilegt að sjá á Þjóðminjasafninu og margar spurningar sem kvikna í hugum forvitinna gesta. Hvað leynist á sýningu safnsins sem fá börn vita af? Er allt sem sett er á sýningu sjálfkrafa orðið að dýrgrip? Má máta búninga? Má leika sér?

Komið í heimsókn og látið koma ykkur skemmtilega á óvart. Safnkennarar taka á móti fjölskyldum með börn
alla miðvikudaga í sumar kl. 14. 

Aðgöngumiði í safnið gildir.

Í fjölskyldurýminu Stofu er nú sýningin Drasl eða dýrgripir sem er safn umbúða utan um verslunarvarning áranna 1930-60. Sú sýning er útgangspunktur athugunar á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins í barna- og fjölskyldudagskrá sumarsins 2022. Út frá þessari sýningu er hægt að draga ýmis þemu, svo sem vangaveltur um einstaka safngripi, samhengi hlutanna og merkingu, leturgerð, liti og form.

Sýningin Drasl eða dýrgripir vekur spurningar eins og: 

  • Safnar einhver sem þú þekkir dóti sem aðrir henda?
  • Hvaða litur er mest notaður á tilteknum árum?
  • Eru einhver einkenni við hönnun gripa fortíðar sem þú sérð líka í dag?
  • Hvaða stafagerð finnst þér flottust?
  • Sérðu einhverja hluti sem þú gætir notað í þínu daglega lífi?
  • Hvort eru hlutirnir drasl eða dýrgripir í þínum augum?

 Í sumar er föndursmiðja í fjölskyldurýminu Stofu sem tengist þemanu Drasl eða dýrgripir. Þar er hægt að lita, klippa, líma og móta sitt eigið listaverk úr notuðum umbúðum og blöðum og breyta þannig drasli í dýrgrip!

Veistu hvað? er í boði alla miðvikudaga frá og með 22. júní til og með 17. ágúst, með sömu yfirskrift en ólíkri nálgun í hvert sinn.

Aðgöngumiði í Þjóðminjasafnið kostar 2.500 kr. fyrir fullorðna og gildir í eitt ár, en frítt er fyrir börn yngri en 18 ára. Þið eruð þannig velkomin eins oft og þið viljið innan ársins og hafið næg tækifæri til að uppgötva allt það sem sýningar í Þjóðminjasafninu hafa að geyma. Aðgöngumiðinn gildir að öllum sýningum og viðburðum á vegum safnsins.

Verið velkomin samferða í sumar.

 


Sumardagskrá