Viðburðir framundan

Sögufrægir fánar

  • 1.12.2018, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Stjórnarfáni Íslands, klofinn ríkisfáni, sem dreginn var að húni á Stjórnarráðshúsinu sunnudaginn 1. desember 1918, þegar sambandslögin gengu í gildi og Íslendingar fögnuðu fullveldi, er til sýnis í anddyri Þjóðminjasafns Íslands í tilefni fullveldishátíðarinnar.

Þessi tiltekni fáni var notaður við Stjórnarráðshúsið í fáeina mánuði. Hann er í ýmsu frábrugðinn tillögum fánanefndarinnar frá 1914 um þjóðfána Íslands. Til að mynda er blái liturinn í þessum fána grænleitari en vera skal og rauði liturinn er dekkri en kveðið er á um. Hvítu ræmurnar eru úr lérefti, en samkvæmt reglum skulu allir hlutar fánans vera úr ullardúk, svokölluðum fánadúk. Fáninn hefur því sennilega verið gerður í nokkrum flýti. 1. desember 1918 hafði heldur ekki verið gengið frá ákvæðum um gerð stjórnarfána Íslands. Fáninn er mun styttra klofinn en ákvæðin sögðu svo til um. Þetta skýrir líklega að hluta til hvers vegna fáninn var ekki notaður lengur en raun ber vitni, sem og hversu illa hann hefur farið á þessum stutta notkunartíma.

Hvítbláinn eða bláhvíti fáninn sem gerður var upptækur í Reykjavíkurhöfn 1913 er á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins sem lykilgripur 20. aldar.

Á fyrstu árum 20. aldar var oft flaggað með fána af þessari gerð án þess að yfirvöld fyndu að því. Samkvæmt lögum var ekki leyfilegt að flagga öðru en danska þjóðfánanum á skipum sem tilheyrðu danska ríkinu. Þess vegna tók samviskusamur danskur skipherra þennan fána af Einari Péturssyni sem hafði dregið hann upp á kappróðrarbáti á Reykjavíkurhöfn. Þetta varð tilefni fjölmennra mótmælaaðgerða. Árið 1915 fengu Íslendingar loks eigin fána.