Grunnskólar

Miðstig: Í spor landnámsfólksins

Dagskráin er einkum ætluð börnum á miðstigi en hana er hægt að aðlaga öllum aldurshópum. Í heimsókninni er fjallað um landnámstímann og fornleifar frá fyrstu öldum byggðar á Íslandi skoðaðar. Heimsóknin samanstendur af spjalli og fróðleik og skoðun gripa í sýningarskápum auk snertigripa sem má handleika.

Smellið hér til að bóka heimsókn

Leitast er við að gera safnheimsóknina fræðandi og skemmtilega enda er lögð áhersla á að heimsóknin sé uppgötvunarleiðangur fyrir börnin. Þau eru hvött til að spyrja spurninga og tjá sig um hvernig þau tengja við sýningargripi, beinagrindur í kumlum og hugarheim landnámsfólks.

Að heimsókn lokinni hafa börnin kynnst hugtökunum safn og sýning og upplifað Þjóðminjasafnið sem áhugaverðan stað til að heimsækja. Börnin hafa skoðað vel þann hluta grunnsýningarinnar sem fjallar um landnámsöld en þar eru vel flestir gripir jarðfundnir. Nemendur hafa einnig skoðað handrit af Íslendingabók, beinagrindur í kumlum og jarðvegssnið með öskulögum. Börnin hafa kynnst aðferðum fornleifafræðinnar og hafa séð tengslin á milli rannsókna og ályktanna sem af þeim má draga.

Hæfniviðmið og menntagildi

Menntagildi samfélagsgreina eins og það er útskýrt í Aðalnámskrá grunnskóla er haft að leiðarljósi:

1) Hæfni nemanda til að skilja veruleikann (umhverfið, samfélagið, söguna og menninguna), sem hann hefur fæðst inn í, byggist á þeirri reynslu sem hann hefur orðið fyrir. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka reynsluheim nemandans.

2) Hæfni nemanda til að átta sig á sjálfum sér byggist á því hvaða mynd hann gerir sér af sjálfum sér (og öðrum) í eigin huga. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka hugarheim nemandans.

3) Hæfni nemanda til að mynda og þróa tengsl sín við aðra byggist á þeim félagsskap sem hann hefur tekið þátt í. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að virkja nemandann til þátttöku í félagsheimi sínum, þeim gildum og reglum sem þar ríkja. (Bls. 195).

Færi gefst á að þjálfa m.a. eftirfarandi hæfniviðmið samfélagsgreina skv. Aðalnámskrá í heimsókninni:

Nemandi geti;

- skýrt tengsl samfélags, náttúru, trúar og lífsviðhorfa fyrr og nú,
- gert grein fyrir einkennum og stöðu Íslands í heiminum í ljósi legu og sögu landsins, breytilegrar menningar, trúar og lífsviðhorfa,
- lýst einkennum og þróun íslensks þjóðfélags og tekið dæmi um mikilvæga áhrifaþætti,
- vegið og metið áhrif fyrirmynda og staðalmynda, hvernig vinna megi með þau á sjálfstæðan og uppbyggjandi hátt,
- greint hvernig sagan birtist í textum og munum, hefðum og minningum,
- áttað sig á hvernig loftslag og gróðurfar hafa áhrif á búsetu og lífsskilyrði,
- sett sig í spor fólks með ólíkan bakgrunn á völdum stöðum og tímum (bls. 198 – 203).

Fyrirkomulag heimsóknar

Tekið er á móti hópnum í anddyri safnsins. Útifatnaður er hengdur upp í fatahengi í kjallara. Hópurinn sest á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður börnin velkomin. Dagskrá heimsóknarinnar er kynnt sem og safnareglur.

Safnkennarinn leiðir hópinn um grunnsýningu safnsins, Þjóð verður til. Umræðuefnin eru margvísleg, svo sem helgisiðir og trúarbrögð, heilbrigði og lífsviðurværi. Fjallað um daglegar athafnir út frá gripum sem þeim tengjast, svo sem hnefatafl, vopn, silfursjóðir, eldfæri, skart, vefnaður, mataráhöld og verkfæri. Samstarf milli ólíkra fræðigreina, svo sem fornleifafræði, jarðfræði, forvörslu og erfðarannsókna kemur við sögu ásamt tæknibreytingum í þeim fögum.

Heimsóknin tekur um 60 mínútur. Dagskráin er einkum ætluð börnum á miðstigi en hana er hægt að aðlaga öllum aldurshópum. Æskilegt er að ekki séu fleiri en 25 börn í hverjum hópi til þess að þau njóti heimsóknarinnar sem best.

Smellið hér til að bóka heimsókn