Grunnskólar

Yngsta stig: Valþjófsstaðahurðin, með teiknismiðju

Sögur Valþjófsstaðahurðarinnar eru margar enda er hún um 800 ára gömul

Skemmtileg leiðsögn fyrir yngsta stig grunnskóla

Smellið hér til að bóka heimsókn

Ein af sögum hurðarinnar er til dæmis um ljónsriddarann Ívan, einn hinna frægu riddara hringborðsins hjá Artúr konungi. Hurðin geymir einnig drekavafning og fleiri atriði sem ekki ber eins mikið á en gaman er að taka eftir. Riddarabókmenntir eru rómantískar skáldsögur af ævintýrum og ástum, svakalegum bardögum og yfirnáttúrulegum hetjudáðum. Skýr skil eru gerð á milli góðs og ills. Sögurnar bárust til Íslands um 1200 og urðu fljótt vinsælar hér á landi enda hurðin frá þeim tíma. 

Undirbúningur fyrir heimsókn eða eftirfylgni að henni lokinni
Gagnlegt getur verið að undirbúa heimsókn í safnið með því að horfa á valdar myndir sem fjalla um riddara, til dæmis Hugrakkasti riddarinn (Samtökin ´78)Shrek eða How to train a dragon.
Einnig að lesa og teikna teiknimyndasögur, en Bayeux refillinn er prýðilegt dæmi um teiknimynd sem varðveist hefur frá miðöldum.

Áherslur heimsóknarinnar

- Riddarasögur, baráttan milli góðs og ills
- Skoða myndasögur út frá ýmsum sjónarhornum
- Litarannsóknir á hurðinni
- Teiknismiðja með hurðina í forgrunni og sköpun með forngrip sem innblástur

Hæfniviðmið 

Færi gefst á að þjálfa m.a. eftirfarandi hæfniviðmið íslensku og samfélagsgreina skv. Aðalnámskrá í tengslum við heimsóknina:
Við lok 4. bekkjar getur nemandi;

- lesið ævintýri, sögur og ljóð ætluð börnum,
- sagt frá eftirminnilegum atburði og lýst ákveðnu fyrirbæri, endursagt efni sem hlustað hefur verið á eða lesið,
- hlustað og horft með athygli á upplestur, leikið efni, ljóð og söngva og greint frá upplifun sinni,
- nefnt dæmi um einkenni og stöðu Íslands í heiminum í ljósi legu, sögu og menningar,
- rætt um samfélagið og notað valin hugtök í því samhengi,
- bent á dæmi um hvernig sagan birtist í munum og minningum.

Fyrirkomulag heimsóknar

Tekið er á móti hópnum í anddyri safnsins. Útifatnaður er hengdur upp í fatahengi í kjallara. Börnin mega fara úr skóm ef þau koma við opnun safnsins og þurrt er úti. Hópurinn sest á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður börnin velkomin. Dagskrá heimsóknarinnar er kynnt og farið yfir þær reglur sem gilda á safni.
Safnkennari leiðir nemendur um grunnsýningu safnsins með Valþjófsstaðahurðina í brennidepli. Staldrað er við hana í góða stund og vöngum velt yfir mörgum sögum hurðarinnar, hvenær og af hverju hún var búin til, hvaða ferðalög hún hefur farið í og af hverju hún er nú komin á Þjóðminjasafnið. Einnig útskornu myndirnar sem hana prýða.

Þá taka nemendur þátt í teiknismiðju sem tengir saman sögur hurðarinnar. Að lokum er nemendum fylgt niður í anddyri og safnkennari kveður hópinn. Heimsóknin tekur um klukkustund.

Smellið hér til að bóka heimsókn