Jólasiðir
  • Christmas presents

Jólagjafir

Í dag eru jólin og jólagjafirnar tengd nánast órjúfanlegum böndum og í hugum margra eru jólagjafirnar með því mikilvægasta sem jólahátíðin hefur upp á að bjóða. 

Jolagjafir-opnadarÍ desembermánuði fyllast verslanir og verslunarmiðstöðvar af fólki sem kaupir hverja jólagjöfina á fætur annarri og eru allir fjölmiðlar stútfullir af auglýsingum um tilvaldar jólagjafir. Jólagjafaflóðið virðist aukast með hverju árinu og þurfa verslunareigendur sannarlega ekki að kvarta yfir neinu á þessum árstíma. Þar sem jólagjafirnar skipa svo stóran sess í jólahaldinu nú á dögum er svolítið undarlegt til þess að hugsa að siðurinn að gefa jólagjafir er í raun og veru ekki svo gamall á Íslandi. Það var ekki fyrr en á seinni hluta 19. aldar að almenningur fór að gefa jólagjafir hér á landi. Hins vegar er gaman að minnast á það að siðurinn að gefa sumargjafir á sér mun lengri sögu hér á landi og eru til heimildir allt frá 16. öld um sumargjafir.

Þess ber þó að geta að þó það hafi ekki tíðkast meðal almennings að gefa jólagjafir fyrr en á 19. öld þekktist það að kóngafólk og höfðingjar til forna, bæði hér á landi og erlendis, gáfu gjafir á jólum. Einnig hefur það tíðkast frá fornu fari að gefa fátækum matargjafir eða einhvern glaðning fyrir jólin og er það enn gert bæði hér á landi sem erlendis. Þá mætti einnig benda á að í gamla sveitasamfélaginu fengu flestir heimilismenn yfirleitt eina nýja flík og nýja sauðskinnsskó frá húsbændum sínum fyrir jólin. Það var þó ekki litið á þessar gjafir sem eiginlegar jólagjafir heldur frekar sem eins konar verðlaun fyrir vel unnin störf en fyrir jólin ríkti mikil vinnuharka þar sem ljúka þurfti við alla vinnu áður en jólahátíðin gekk í garð.

Það má kannski segja að fyrsti vísirinn að eiginlegum jólagjöfum hér á landi hafi verið þegar það fór að tíðkast snemma á 19. öld að gefa börnum, og stundum öllum á heimilinu, kerti á jólunum. Eitt af verkunum sem vinna þurfti fyrir jólin var að steypa tólgarkerti og voru slík kerti fremur dýr þannig að það var mikil hátíðarstund þegar börnin fengu sitt eigið kerti. Kertaljósið var einnig mun bjartara en ljós lýsislampanna sem notaðir voru hversdags og er auðvelt að ímynda sér hátíðlegt andrúmsloftið í baðstofunni á jólunum þegar allir höfðu kveikt á kertinu sínu.

Eftir því sem leið á 19. öldina fóru jólagjafirnar smám saman að aukast og verða almennar. Þá fóru einnig að birtast sérstakar jólagjafaauglýsingar í blöðunum en sú elsta sem fundist hefur í íslensku blaði birtist í Þjóðólfi árið 1866 þar sem Nýja Testamentið er auglýst sem heppileg jólagjöf fyrir börn og ungmenni. Eftir því sem innflutningur á ýmiss konar varningi jókst fóru jólagjafirnar einnig að aukast og má segja að sá bolti sem fór að rúlla á seinni hluta 19. aldar sé enn á fullri ferð því lítið lát virðist vera á jólagjafainnkaupum fyrir jólin.

Heimildir:
Árni Björnsson. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík 1993.
Árni Björnsson. Saga jólanna. Tindur, Ólafsfjörður 2006.